Samráðið hafið

Nú hafa verið haldnir tveir fundir í samráðshópi vegna framkvæmda við Miklubraut / Kringlumýrarbraut.

Fyrsti fundurinn var haldinn 25. júlí og var þar farið í gegnum tillögurnar sem borgin lagði fram og kynnti íbúum í apríl sl. Að þeirri kynningu lokinni var farið yfir væntingar aðila við vinnuna framundan og lýsti fulltrúi Íbúasamtaka 3. hverfis því að það væri óásættanlegt að mannvirkið risi úr jörðu og að yfirbyggðir stokkar næðu ekki nógu langt. Á næsta fundi átti að fara yfir tillögur íbúasamtakanna og á fundi þar á eftir, yrði sérstaklega farið yfir loftgæðamál.

Næsti fundur var svo sl. fimmtudag, 14. ágúst. Fjölmennt var á fundinum, utan þess að formaður samráðshópsins var fjarverandi.

Birgir Björnsson frá Íbúasamtökum Háaleitis fór fyrst yfir mengun og afleiðingar af henni, sérstaklega á börn. Hann lýsti því einnig yfir að samtökin í Háaleiti leggðu mikla áherslu á bæði Miklabraut og Kringlumýrarbraut yrðu neðanjarðar að sem mestu leiti.

Pálmi og Hilmar voru mættir frá Íbúasamtökum 3. hverfis – Hlíðar, Holt og Norðurmýri. Þeir byrjuðu á að dreifa til fundargesta glærum íbúasamtakanna frá fundi í Kennaraháskólanum í apríl sl. og þeim athugasemdum sem þar voru settar fram, ásamt því að dreifa spurningarlista sem samgönguyfirvöldum var sendur í kjölfar fyrsta kynningarfundar í hverfisráði í mars sl.

Hilmar fór í gegnum nokkrar glærur þar sem farið er í grunngerðir borgarskipulags. Hann sýndi þar gestum fram á að borgarskipulagið sem nú er í gildi er í eðli sínu hraðbrautaskipulag með smáum og dreifðum þjónustukjörnum. Slíkt skipulag styður mjög við einkabílaþróun og að erfitt er að byggja upp sterkt almenningsamgöngukerfi í slíku skipulagi. Jafnframt var farið í gegnum það hvernig svokallaðar sterkkjarnaborgir fái almennt mun betri lífsgæðaeinkunn og hvernig slíkt borgarskipulag styðji mikið betur við almenningssamgöngur.

Að því loknu, þá fór Hilmar í gegnum grunnhugsun í því hvernig beina mætti þróun í Reykjavík í slíka átt, með því að líta öðrum augum á borgarskipulagið og hvernig nú væri tækifæri til að þróa sterkkjarnaborg á austari hluta nessins sem Reykjavík byggir.á. Þessar hugmyndir eru komnar frá Samúeli Torfa Péturssyni sem hefur stúderað mikið skipulag í Reykjavík  Samúel hefur verið óþreytandi í að aðstoða okkur við gagnaöflun vegna skipulagsmála og fræða og þannig rataði þessi tillaga á okkar fjörur.

Viðbrögðin við þessari kynningu okkar voru misjöfn, allt frá því að þetta ætti að kynna í Skipulagsráði borgarinnar yfir í að þetta myndi nú aldrei ganga. Eftir góðar umræður, bentum við á að í þessu væru nokkrir áfangar sem hægt væri að byrja á, óháð því hvert stefndi og var nokkur sátt um að yfirbyggð stokkalausn á Miklubraut gæti orðið fyrsti áfangi og myndi ekki vinna gegn neinum af þeim tillögum sem liggja fyrir. Reyndar á eftir að ræða þetta frekar og íbúasamtökin leggja áherslu á að þetta yrði yfirbyggð stokkalausn allt frá Snorrabraut að Grensás.

Á næsta fundi verða loftgæðamál á dagskrá, en eins og við höfum ítrekað bent á, eru þau með öllu óásættanlega í okkar hverfi í dag.

Glærur af fundinum:

Fyrir hluti - grunnurinn og ný sýn á hverfaskiptingu í Reykjavík - PDF skjal

Seinni hluti - frá Samúeli Torfa Péturssyni - PDF skjal