Boðað er til aðalfundar Íbúasamtaka 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri

Aðalfundur Íbúasamtaka 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri verður haldinn þriðjudaginn 4. nóvember 2008, kl. 20:00 í Skriðu, hátíðarsal menntasviðs Háskóla Íslands (áður Kennaraháskólans). Gengið er inn frá Háteigsvegi.

Dagskrá:

Aðalfundarstörf samkvæmt lögum samtakanna:

  1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins
  3. Kosning formanns
  4. Kosning stjórnar og varamanna
  5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  6. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs
  7. Kosning nefnda
  8. Starfsáætlun fram að vorfundi
  9. Önnur mál

Gerð verður grein fyrir samráðsferli sem hefur verið í gangi vegna gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og mögulega kynnt niðurstaða samráðshóps. Vonast er eftir að fulltrúi frá borgaryfirvöldum komi á fundinn og geri grein fyrir samráðinu og niðurstöðu þess. Annars munu fulltrúar Íbúasamtakanna gera grein fyrir þessum ferli og niðurstöðum hans.

Lóð fyrir útisundlaug við Sundhöllina tryggð

Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur þann 15. október sl. var samþykkt að taka frá lóð sunnan Sundhallarinnar undir útisundlaug. Þó svo að ekkert hafi verið ákveðið með hvenær framkvæmdi hefjast, þá er þetta mikilvægur áfangi í að tryggja að hægt verði að ráðast í þessa framkvæmd í framtíðinni. Alls skrifuðu um 850 manns sig á áskorun um útisundlaug við Sundhöllinna á vefsíðu Íbúasamtakanna og á undirskriftarlista í Sundhöllinni.

Af hverfisráði Hlíða

Fulltrúi Íbúasamtaka situr með málfrelsi og tillögurétt á fundum hverfisráðs Hlíða. Þar hafa samtökin komið inn mörgum málum í meðferð í borgarkerfinu og hefur þessi vettvangur reynst dýrmætur til að koma okkar sjónarmiðum að. Meðal mála sem eru í meðferð hjá hverfisráði Hlíða núna má nefna hraðakstur í Lönguhlíð norður og framtíðarskipulag þar, hraðakstur í Stakkahlíð norður, Valsrútan, málþing um samgöngustefnu í hverfinu, mengurnarmál af völdum umferðar, verndun Fossvogsins fyrir ágengi Kópavogs með uppfyllingum á Kársnesi, umferðarmál í hverfinu og fleira og fleira. Ef íbúar hafa tillögur sem þeim finnst að taka þurfi upp í hverfisráði, eru þeir hvattir til að senda formanni Íbúasamtakanna tölvupóst þar um.

Áskrifendur á tölvupóstlistum

Við hvetjum enn og aftur íbúa sem fá þennan póst að áframsenda hann á nágranna og aðra sem þeir vita um í hverfinu og hvetja þá til að skrá sig á rafrænan póstlista okkar.