Rafrænt fréttabréf Íbúasamtaka 3. hverfis - september 2009

Skottmarkaðurinn sló í gegn!

Það er óhætt að segja að skottsmarkaðurinn hafi slegið í gegn á Hverfahátíðinni þann 5. september sl. og myndaðist þar lífleg markaðsstemning sem einhverjir líktu við útlanda stemningu. Það er ljóst að skottmarkaður við Kjarvalstaði verður haldinn aftur. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með og / eða taka þátt í næsta markaði, geta sent tölvupóst á skottmarkadur@gmail.com. Íbúasamtök 3. hverfis, undir öryggri stjórn Steinunnar Þórhalldóttur, sá um skottmarkaðinn á Hverfahátíðinni. Á vef Íbúasamtaka 3. hverfis má finna myndir af skottmarkaðinum sem
Ottó Ólafsson tók.

Samgönguþing Hlíða

Fyrirhugað er að halda samgönguþing Hlíða þann 21. október n.k. Það er Hverfisráð Hlíða sem stendur að þessu með þátttöku Íbúasamtaka 3. hverfis og öðrum aðilum í hverfinu. Fyrirhugað er að halda fundinn á Kjarlvalsstöðum milli kl. 17 og 19 og vinna í hópvinnu í líkingu við þá sem var á íbúafundinum um Miklatún fyrr á árinu og tókst svo vel. Við segjum nánar frá þessu þegar nær líður og endanleg dagskrá lítur dagsins ljós.

Aðalfundur Íbúasamtaka 3. hverfis 2009

Aðalfundur Íbúasamtaka 3. hverfis verður haldinn þann 29. október n.k. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður kynnt niðurstaða úr samráðshópi borgarinnar um framtíðarskipulag á Miklatúni en íbúar hafa haft veruleg áhrif á það skipulag sem er að líta dagsins ljós. Þeir íbúar sem hafa áhuga á að koma að málefnum hverfisins og bjóða sig fram til stjórnarstarfa eru beðnir um að senda okkur línu á hlidar@hlidar.com! Fundarstaður og nákvæm dagskrá verður auglýst er nær dregur og eins og öll fyrri ár, verður póstkort sent á öll heimili í hverfinu með tilkynningu um fundinn og fundarstað.

Sjálfboðaliðahópur í rusli

Áhugasamur íbúi hafði samband við okkur með frábæra hugmynd sem gengur út á það að hittast öðru hvoru t.d. á helgarmorgni og týna rusl á fyrirfram ákveðnum svæðum í hverfinu okkar. Þetta gæti farið fram þannig að ákveðið væri eitt svæði og svo myndu áhugasamir hittast í um klukkustund og týna rusl á svæðinu. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í slíku verkefni geta haft samband við okkur á hlidar@hlidar.com eða Magnús Teitsson og sjáum hvort við getum ekki komið fyrsta hópnum á laggirnar! Þarft málefni sem getur orðið að skemmtilegri útvist að auki.

Af fundum Hverfisráðs Hlíða

Íbúasamtök 3. hverfis eiga fulltrúa með málfrelsis og tillögurétt á fundum Hverfisráðs Hlíða. Þar hafa samtökin tekið upp fjölmörg mál og á síðasta fundi ráðsins var m.a. fylgt eftir fyrirspurnum um nýja akrein á Miklubraut, stöðu mála vegna mikils hraðaksturs í Lönguhlíð, Stakkahlíð, Háteigsvegi og víðar í hverfinu, ásamt því hverju liði að koma á 40 km hámarkshraða á Lönguhlíð og Flókagötu milli Lönguhlíðar og Rauðarárstíg. Fundargerðir Hverfisráðs Hlíða eru birtar á vef Reykjavíkurborgar og eru íbúar hvattir til að fylgjast með þeim!

Fleiri áskrifendur!

Íbúar sem fá þetta fréttabréf sent eru hvattir til að segja nágrönnum, ættingjum, vinum og öðrum sem þeir þekkja og búa í 3. hverfi Reykjavíkur - Hlíðar, Holt og Norðurmýri af vef Íbúasamtakanna með hvatningu um skráningu á póslistann okkar! Markmiðið er að sem flestir íbúar séu á þeim póstlista og geti þannig fengið upplýsingar um það sem er á döfinni í hverfinu okkar. Skráning á vefnum okkar!