Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Sameinum Hlíðarnar

7. október 2005

Margar hugmyndir hafa komið fram um framtíðarskipulag Borgarinnar í aðdraganda kosninga í Reykjavík. Það virðist sem lausnir á núverandi vandamálum séu ekki ofarlega á baugi hjá frambjóðendum þótt víða kreppi skóinn alvarlega að. Eitt af stærstu vandamálum sem búið hefur verið til í Reykjavík er í Hlíðahverfi þar sem Hlíðunum hefur verið skipt upp í þrjár eyjar sundurskornar af beljandi straumi stofnbrauta. Hlíðahverfið byggja um 5.700 manns samkvæmt skipulagssjá Reykjavíkurborgar, en hinsvegar er hverfið eins og tættur eyjaklasi sem er engan veginn í stakk búinn til að veita íbúum sínum fullnægjandi þjónustu með greiðu aðgengi. Dag hvern fara 43.000 bifreiðar eftir Miklubrautinni í gegnum hverfið. Bifreiðar sem eiga það eina erindi í hverfið að komast sem fyrst út úr því aftur.

Með nýlegum breytingum á gatnamótum Kringlumýrar- og Miklubrautar var afkastageta gatnamótanna aukin umtalsvert. Á sama tíma er ný Hringbraut tekin í notkun til að auka umferðarstreymi austur eftir borginni. En við að leysa þau vandamál sem þessum tveimur stóru framkvæmdum var ætlað að leysa, var búið til nýtt vandamál og það sínu verra. Flöskuhálsinn var fluttur um set að gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Þau gatnamót anna engan veginn þeim umferðarþunga sem nú er beint á þau og á álagstímum í eftirmiðdaginn nær röð umferðar á leið austur Miklubraut alla leið vestur á Hringbraut. Á morgnana er samfelld röð bíla í vestur átt alla leið austur fyrir gatnamót Kringlumýrarbrautar. Þeir 43.000 bílar sem fara um þessi gatnamót á hverjum degi eiga fæstir erindi í Hlíðarnar. Þeirra hagur er að komast sem hraðast í gegnum hverfið í átt að mið- og vesturbæ. Þessi gatnamót hindra þá í þeirri ætlan sinni.

Á sama tíma eru það þessir 43.000 bílar sem kljúfa þetta gamalgróna og vinsæla hverfi í tvennt með því að mynda óbrúanlegt stórfljót umferðar með tilheyrandi hættum. Þeir sem búa norðan Miklubrautar þurfa að sækja þjónustu suður fyrir þetta stórfljót. Dæmi um það er heilsugæsla sem er sunnan megin Miklubrautar. Börn úr Norðurhluta sem vilja stunda íþróttir hjá hverfisfélaginu þurfa að fara yfir þessa miklu umferðargötu, auk þess að þurfa að glíma við Bústaðaveginn og skiljanlega hika foreldrar við að hleypa þeim einum af stað þegar þeim mætir slíkur hafsjór af bifreiðum. Í nýlegum og virðingarverðum tillögum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um nýtingu Miklatúns vantar að leysa það vandamál sem felst í aðgengi að Miklatúni. Íbúar Hlíðahverfis eiga í vandræðum með að nýta sér Miklatún því það er hreinlega ekki aðgengilegilegt fyrir þá. Og ekkert foreldri sendir börnin sín ein út í þá umferð sem nú sker hverfið í sundur. Það bíða 5.700 manns eftir að geta nýtt sér þetta gamalgróna útvistarsvæði og þeim er haldið frá því af stórfljótinu Miklubraut.

Á sama tíma er hávaði við götuna kominn yfir 70 db við bestu skilyrði og mengun fer oft á vetri yfir heilsufarsmörk. Það er því ljóst að lausn á þessu stóra vandamáli samgangna í Reykjavík er orðin mjög aðkallandi. Og lausnin á þessum vandamálum Hlíðahverfisins er í raun mjög einföld. Hún er sú að setja Miklubrautina frá Kringlunni og vestur á Hringbraut í yfirbyggðan stokk með tveim akreinum í hvora átt. Þeir 43.000 bílar sem liggur á að komast í gegnum hverfið kæmust þannig óhindrað í gegn, öllum bílstjórum til mikillar ánægju. Og Hlíðarnar yrðu sameinaðar á ný í eitt heilstætt hverfi þar sem ofan á Miklubrautinni væri orðin til lítil vistgata sem Strætisvagnar ættu greiða leið um. Síðan er aukabónus því það myndu skapast dýrmætar lóðir ofanjarðar þar sem þetta plássfreka stórfljót væri ekki lengur til staðar og þannig mætti mæta kröfum um þéttingu byggðar með byggingu fleiri íbúða í nálægð við miðbæinn. Kostnaður af þessari aðgerð væri óverulegur og sjálfsagt innan við helmingur af kostnaði við nýlega samþykkt Héðinsfjarðargöng.

Það er kominn tími til að sameina Hlíðarnar. Á vefnum www.hlidar.com er komin í gang undirskriftarsöfnun við áskorun á Borgarfulltrúa, Borgaryfirvöld og Þingmenn Reykjavíkur að setja þetta mál efst á dagskránna og sjá til þess að það komist inn á samgönguáætlun sem allra fyrst. Það eru margar aðrar framkvæmdir sem ættu að víkja fyrir þessari, því ávinningurinn er svo augljós: heilsteypt 5.700 íbúa hverfi, meira en 43.000 ánægðir bílstjórar og svo er endurreisn Miklatúns aukreitis. Auk þess verður óþolandi hávaðamengun tamin og möguleikar opnast á að kljást við alvarlega loftmengun. Og láti maður sig dreyma um betri framtíð myndast pláss til uppbyggingar sjálfsagðrar hverfisþjónustu eins og viðunandi heilsugæslustöðvar, sundlaugar, bókasafns og annars sem telst sjálfsagður hlutur í flestum hverfum borgarinnar í dag.

- - - -

Hilmar Sigurðsson er íbúi í Hlíðahverfi og einn af forsvarsmönnum www.hlidar.comTil baka