Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Dagur, Stefán, Steinunn: 256 manns vilja fá svör

9. febrúar 2006

HÉR í hverfinu okkar hefur verið ákveðið af hendi skipulagsyfirvalda borgarinar og í samráði við Keflavíkurverktaka, að reisa stórt og mikið íbúðahverfi. Hér í hverfinu okkar á að tvöfalda íbúafjöldann, á einu bretti. Hér í hverfinu okkar stendur til að reisa nýja og glæsilega risablokk með um 240 íbúðum, næstum jafnmörgum og eru fyrir í öllu hverfinu plús þjónusta og verslun – plús tveggja hæða niðurgrafna bílageymslu – plús gífurleg umferðaraukning sem þessu öllu fylgir – já og plús hvað – hvar eru plúsarnir? Allt í nafni þéttingar byggðar. Við sem búum hér sjáum ekki alla þessa plúsa, skrýtið. Það eru nefnilega mínusar líka.

Við sem búum í hverfinu vitum að hér er ekki mikið svigrúm, ef nokkurt, fyrir umferðaraukningu. Allir sem keyra Háteigsveg, Stórholt eða Skipholt niður á Hlemm gera sér alveg grein fyrir því. Við mínusarnir í hverfinu teljum það ekki okkur í hag að þvinga bíllausa borg uppá hugsanlega kaupendur nýbygginga á svæðinu. Það eru 0,4–1,0 bílastæðispláss á hverja íbúð handa þeim sem flytja á þetta svæði. Vita þau það?

Við sem búum hér í gömlum húsum viljum fá svör við því hver ber ábyrgð á þeim skemmdum sem verða vegna þessara framkvæmda. Við búum á klöpp, við vitum það – við búum í gömlum húsum, við vitum það, við höfum þess vegna áhyggjur – við vitum það að sprengingar sem ná tvær hæðir niður í þessa klöpp munu valda talsverðum titringi sem mun hafa ófyrirsjáanleg áhrif á veitukerfi og mannvirki. Við sem búum hér vitum líka að það er skipulagsslys að staðsetja 6 hæða raðbyggðar risablokkir í gömlu og rótgrónu íbúðahverfi, íbúðahverfi þar sem sú byggð sem er fyrir er um 2–4 hæðir.

Við sem búum í hverfinu erum hér vegna þess að við löðuðumst að þeirri byggð sem var fyrir. Við sem búum hér teljum að við höfum ákveðin BÚSETUGÆÐI, sem á ekki að rýra. Þess vegna búum við hér. Við sem búum hér viljum að minnsta kosti að haft sé samráð við okkur – önnur en þau sem eru fólgin í því að fá náðarsamlegast að sjá hugmyndir og/eða teikningar. Okkur er nokk sama þótt efsta hæðin á herlegheitunum sé inndregin og að nýtingarhlutfallið hafi lækkað um 0.09.

Við erum framsýn og við viljum að það komi ný öfl, nýjar hugmyndir, nýtt umhverfi inn í það gamla en það á ekki að kæfa það sem fyrir er. Fólk hefur flust í þetta hverfi vegna þess að það hefur sjarma – íbúar hverfisins hafa mótmælt kröftuglega þeim áformum sem uppi eru í því deiliskipulagi sem nú hefur verið auglýst. Íbúar hafa sent inn athugasemdir og skrifað á undirskriftalista. Og hvað svo? BÚSETUGÆÐI – ÍBÚALÝÐRÆÐI, HVERFISSAMTÖK! Þegar á hólminn er komið þá hafa þessi orð ekki neina merkingu heldur eru tómt skrum. Allavega í þessu hverfi, ekki núna, kannski seinna, en hvenær þá? Kannski eru menn ekki vaxnir þessum stórum orðum, það er búið að skora Reykvíkinga á hólm með þessum orðum en er þá forsvaranlegt að sá sem skorar á hólm hopar til hliðar og segir bíddu – bíddu, þetta var ekki alveg SVONA meint, ekki alveg SVONA sem við vildum stjórna.

Við sem erum í neikvæða liðinu núna við erum tilbúin að taka upp hanskann og vinna með. Við sem búum í hverfinu vitum að þetta er bölvað þrauk en höldum sum að það sé nú allt í lagi að láta reyna á þetta í alvöru. Við sem búum í hverfinu spyrjum og viljum svar Dagur, Stefán, Steinunn. Við sem erum í neikvæða liðinu gagnvart skipulagsyfirvöldum, okkur finnst að það hefði mátt taka tillit til þeirra athugasemda sem voru sendar inn síðastliðið sumar og haust. Við sem erum í neikvæða liðinu búum í hverfinu og við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að byggja hér upp blómlega byggð á auðum svæðum. Við sem búum í hverfinu og erum því í raun þegar öllu er á botninn hvolft, ALLTAF í jákvæða liðinu, gerum okkur grein fyrir því að hverfið breytist. Við sem búum í hverfinu viljum svo gjarnan að við séum marktækir Reykvíkingar. Við 256 íbúar plús viljum fá að heyra afstöðu ykkar.

Ætlar þú, Dagur að taka tillit til sjónarmiða íbúa?

Ætlar þú, Stefán að taka tillit til sjónarmiða íbúa?

Ætlar þú, Steinunn að taka tillit til sjónarmiða íbúa?

Eða ætlið þið að búa til Moskvu Plús?

____________________________

Sif Bjarnadóttir
Höfundur er kennariTil baka