Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Ráðherra samgöngumála sýnir íbúum Reykjavíkur lítilsvirðingu!

26. apríl 2006

Í nóvember 2005 var haldinn fjölmennur fundur um Sundabraut þar sem íbúar beggja vegu sundsins komu á framfæri eindregnum mótmælum sínum við þá þrjá valkosti sem kynntir voru með áherslu á svokallaða innri leið sem ríkisstjórnin hafði skilyrt fjárframlagi af símasölu. Í kjölfar fundarins var skipuð samráðsnefnd sem í áttu sæti fulltrúar borgarstjórnar, Faxaflóahafna, Vegagerðarinnar og fulltrúum Íbúasamtaka Grafarvogs og Laugardals. Sú staðreynd að íbúum þessara hverfa var boðin þátttaka markaði tímamót í bættum vinnubrögðum opinberra aðila í átt að auknu íbúalýðræði. Þessi þátttaka íbúanna hefur nú skilað sér í þeirri niðurstöðu samráðsnefndarinnar að tillögur íbúa um að Sundabraut verði lögð í jarðgöng er orðin fyrsti valkostur. Þannig verður losnað við bæði hávaða- og sjónmengun sem annars væri af brautinni eins og lagt var til í fyrri tillögum, auk þess sem tækifæri gefst til að temja loftmengun sem umferð bíla skapar. Þessi tillaga er jafnframt studd af íbúasamtökum 3. hverfis, því hún beinir umferð frá Miklubraut á Sæbraut sem er vannýtt umferðarmannvirki í dag.

Með þeim orðum sem ráðherra lét falla á þingi í dag er gert lítið úr þessu samráði og vilja íbúa hverfanna sitt hvoru megin við sundið. Sú staðreynd að ráðherra hafi ekki biðlund á meðan rétta lausnin er fundin í samráði og sátt við íbúa er ekkert annað en lítilsvirðing við íbúa þessara hverfa. Jafnframt er sjálfsagt að benda ráðherra á þá staðreynd að þessi tími sem er tekinn í að finna réttu lausnina í sátt og samráði við íbúa er mjög stuttur í samanburði við þann tíma sem slíkt umferðarmannvirki er reist til að standa.

Ráðherra færi kannski betur að nota sinn tíma í að reyna að vinna fleiri góðum samgöngumálum í Reykjavík brautargengi. Má benda honum á lagningu Miklubrautar í yfirbyggðan stokk sem bæði er hægt að vinna hratt og er mjög hagkvæm framkvæmd. Með stokki má losna við að byggja tröllaukin 15 milljarða króna mislæg hraðbrautargatnamót sem ekkert erindi eiga í íbúðahverfi borgarinnar.

- - - -

Hilmar Sigurðsson er íbúi í 3. hverfi ReykjavíkurTil baka