Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Íbúar hafna hraðbrautalausnum inni í miðri borg!

Reykjavík 28. apríl 2006

Núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninga keppast frambjóðendur við að koma sínum stefnumálum að. Meðal þeirra mála sem heyrist töluvert fjallað um eru fjölakreina stofnbrautir í borginni og mislæg gatnamót. Tvö af þessum málum eiga erindi við 3. hverfi Reykjavíkur; Hlíðar, Holt og Norðurmýri. Annað málið snýr að hinu nær ómanngenga stórumferðarfljóti Miklubraut sem klífur 3. hverfi í miðju og hitt málið eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Íbúar í 3. hverfi hafa þegar komið með tillögur um hvernig hefja megi sameiningu Hlíðahverfis með því að setja Miklubraut niður í yfirbyggðan stokk. Ekki aðeins er þannig auðveldaður aðgangur fjölda íbúa að þjónustu í hverfinu, heldur er einnig tekið á óþolandi hávaðamengun frá hraðbraut inni í miðri borg. Jafnframt gefst tækifæri til að takast á við tamningu loftmengunar sem ofsinnis fer yfir heilsufarsmörk á vetrum, með tilheyrandi heilsufarsáhættu, sérstaklega fyrir yngstu borgara hverfsins. Við íbúar í 3. hverfi söknum umræðu um þetta málefni í aðdraganda kosninga og vildum gjarnan heyra frá fulltrúum framboða um stefnu þeirra varðandi sameiningu Hlíðanna og stokkun Miklubrautar. Nær 1.000 manns sem skrifað hafa undir áskorun á vefnum www.hlidar.com bíður svara.

Síðan eru það gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrauta. Þar hafa einhver pólitísk framboð markað stefnu um að á þau gatnamót komi margra hæða, mislæg gatnamót. Umferðarmannvirki sem tekur upp mikið landrými og verður óheyrilega dýrt. Tröllaukið hraðbrautamannvirki sem hefur það eina markmið að hraða enn frekar umferð í gegnum íbúðahverfið okkar og dæla enn meiri umferð inn í hverfið því nálæg gatnamót geta engan veginn tekið við þessari stórauknu afkastagetu gatnamóta stofnbrautanna stóru. Og aukin umferð í gegnum hverfið leiðir af sér enn meiri loft- og hávaðamengun fyrir íbúa. Og eykur enn á einangrun íbúa á litlum eyjum sundurskornum af stórfljótum umferðar. Og eyðir enn meira af verðmætu borgarlandi á nesinu okkar undir dauð umferðamannvirki í stað þess að byggja þar upp iðandi borgarmannlíf.

Hér í borg hefur þótt nauðsynlegt að koma undir jörðu öllum veitulögnum, hvort heldur er vatn, rafmagn eða skolp. Það er kominn tími til að líta á hraðbrautaumferð inni í borginni á sama hátt enda eru hraðbrautir í sjálfu sér lagnir sem hafa það eina markmið að koma umferð sem hraðast um. Það markmið á ekkert sameiginlegt með að lifa góðu lífi í borg. Það er sanngjörn krafa íbúa eldri hverfa Reykjavíkur að borgin okkar virði rétt þeirra til að anda að sér hreinu lofti og að hávaði af óþarfa gegnumstreymis umferð verði takmarkaður sem mest má í þeirra umhverfi. Hraðbrautir í stokkum og göngum eru lausnir sem mæta þessum kröfum. Miklabraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut og Sundabraut eru leiðir sem falla allar í hraðbrautaflokkinn inni í borginni. Flokk sem íbúar í Reykjavík virðast kjósa að hafa neðanjarðar.

- - - -

Hilmar Sigurðsson er formaður íbúasamtaka 3. hverfisTil baka