Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Miklabraut dauðans?

Reykjavík 28. júlí 2006

Föstudaginn 21. júlí varð 7 ára barn fyrir bíl á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Sem betur fer slapp barnið við lífshættulega áverka en liggur þó fótbrotið eftir. Þannig liggur daglega líf íbúa 3. hverfis Reykjavíkur við að komast yfir þetta stórfljót umferðar sem klýfur hverfið í litlar einangraðar eyjar. Þessi ákeyrsla á gangandi barn í miðju hverfinu sýnir enn og aftur að stórumferðarfljótið Miklabraut er hreinlega ómanngengt við núverandi aðstæður og á best heima í yfirbyggðum stokki í gegnum ALLT hverfið. Sú leið er sú eina sem getur tryggt til frambúðar öryggi íbúa í Hlíðahverfi sem þurfa að sækja þjónustu beggja vegna brautarinnar en er gert það nær ógerlegt við núverandi aðstæður. Íbúasamtök 3. hverfis hafa áður bent borgaryfirvöldum á þessa staðreynd auk þess sem nær 1.000 manns hafa undirritað áskorun til borgar- og samgönguyfirvalda um stokkun Miklubrautarinnar á vef samtakanna á www.hlidar.com

Sumarið 2005 voru gerðar breytingar á Miklubrautinni í gegnum Hlíðahverfið, frá Kringlumýrarbraut að Lönguhlíð. Í þeim aðgerðum voru ljósum á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar breytt í þrepaljós, þannig að yfir þau þarf að fara í tveimur áföngum. Samskonar breytingar voru gerðar á gangbrautarljósum sem eru ofan Stakkahlíðar og fyrir vikið getur tekið meira en tvær mínútur fyrir gangandi vegfaranda að fara yfir slík ljós. Slíkt leiðir til mikillar hættu á að börn og ungmenni skilji ekki að það þurfi að ýta aftur á hnappinn á miðri umferðareyjunni. Þau haldi áfram för án þess að spá í að á það sé rautt ljós á seinni akreininni.

Sjónskertir eiga jafnframt í erfiðleikum þrepaskipta lausn og hefur Blindrafélagið gert alvarlegar athugasemdir við slíkar lausnir. Auk þessa er þrepalausn gangbrautarljósa ólíðanleg vegna þeirrar lélegu þjónustu sem þau veita gangandi vegfarendum. Hvers konar þjónusta er það við borgarana að láta þá bíða á eyju í miðju stórfljóti umferðar á yfir 70 km meðalhraða sem dælir yfir þá hávaða og ryki og í rigningu vænum gusum af tjörublandaðri drullu? Slík hraðbrautarumferð á ekkert sameiginlegt við þær hugmyndir sem almennt eru til um búsetu í íbúavænni borg!

Það væri ágætt fyrir þá sem hönnuðu þessar lausnir að reyna að fara yfir stórfljótið á blautum vetrardegi með barnavagn. Það myndi örugglega sýna þeim fram á hversu fáranleg lausn það er að bjóða gangandi vegfarendum upp á þrepaskipt gangbrautarljós. Og niðurstaðan úr þessu er að sjálfsögðu sú að ljósin eru ekki að veita það öryggi sem þeim er ætlað, þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Gangandi vegfarendur vilja jú komast áfram í umferðinni eins og aðrir og börn og ungmenni hlaupa beint yfir alla leið, eins og við foreldrarnir höfum kennt þeim að gera í gegnum áratugina. Hvað þarf til að yfirvöld fari að virða þarfir gangandi gangandi vegfarenda fram yfir þarfir ökutækjanna? Eins og staðan er nú er það stórfljótið sem klýfur Hlíðarnar sem stefnir í að verða Miklabraut dauðans!

- - - -

Hilmar Sigurðsson er formaður Íbúasamtaka 3. hverfisTil baka