Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Herlúðrar í Hlíðunum

Reykjavík 4. september 2006

Þessa mánuðina fer fram hönnun á umferðarmannvirkjum við mislæg gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar. Borgaryfirvöld hafa gefið út yfirlýsingar um það að slík gatnamót skuli rísa fyrir lok kjörtímabils, þrátt fyrir að 9 af hverjum 10 íbúum í nágrenni gatnamótanna séu mótfallin slíkum framkvæmdum.

Íbúasamtök 3. hverfis hafa barist fyrir því að sameina Hlíðarnar með því að fá Miklubrautina lagða í stokk ALLA leið í gegnum hverfið og telur stjórn samtakanna að sú aðgerð sé mun meira aðkallandi en að koma fyrir þriggja hæða mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrar- og Miklubraut, þótt niðurgrafin séu. Þessa skoðun hafa umferðarverkfræðingar tekið undir og á vef Íbúasamtakanna hafa hart nær 1.000 manns skrifað undir áskorun að koma Miklubrautinni stokk hið fyrsta.

Í sumar fundaði stjórn Íbúasamtakanna með Gísla Marteini Baldurssyni, formanni Umhverfisráðs, þar sem Gísli ítrekaði við stjórnina ætlun borgarinnar að reisa gatnamótin og lagði fram frumdrög að þeim hugmyndum. Gísli staðfesti jafnframt að væntanlega verður litið á gatnamótin og niðursetningu Miklubrautar í yfirbyggðan stokk sem eina framkvæmd sem yrðu sendar samtímis í umhverfismat.

Í þeim tillögum sem Gísli sýndi stjórn Íbúasamtaka 3. hverfis voru nokkur atriði sem stjórnin gerði athugasemdir við. Þær lutu að því að hæð gatnamótanna ætti að vera í plani við núverandi gatnamót, stærð hringtorgsins, nálægð lausnarinnar við hús við Stigahlíð og Bólstaðarhlíð, þeirri staðreynd að hringtorg eru óþægileg fyrir gangandi og hjólandi umferð og síðast en ekki síst þeirri hugmynd sem fram kom í frumdrögum um að stokkurinn næði ekki alla leið í gegnum hverfið.

Frumdrögin gera ráð fyrir að láta Miklubrautina í stokk undir gatnamótin og láta síðan brautina koma strax upp aftur vestan þeirra og fara síðan aftur niður í stokk til móts við Stakkahlíð og vera neðanjarðar allt að Snorrabraut. Þessi hugmynd er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Hlíðanna og verður að gera þá kröfu að ekki verði tveir gangamunnar á um 200 m kafla milli Stakkahlíðar og Kringlumýrarbrautar. Slíkir munnar munu skapa nýtt víti fyrir íbúa Hlíðahverfis austan Lönguhlíðar að Kringlumýrarbraut því munnarnir munu virka sem lúðrar sem básúna yfir hverfið högghljóðum þegar bílar koma úr göngunum á um 80-90 km. hraða. Slík hljóð munu berast langt inn í hverfið og hljóðmengunarsvæði þeirra væntanlega umtalsvert stærra en áhrifasvæði núverandi umferðar um Miklubraut. Og 43.000 slík “þúmp, þúmp, þúmp” á sólarhring munu endanlega æra íbúa þessa góða hverfis.

Þegar leitað var eftir rökum fyrir því að láta umferðina koma upp við Stakkahlíð, frekar en að halda henni niðurgrafinni í stokk alla leið austur fyrir Kringlumýrarbraut, kom fram að verkfræðingar hefðu áhyggjur af þeim hluta umferðarinnar sem ekki áttaði sig á að fara Bústaðarveg (og í framtíðinni um Öskjuhlíðargöng) í suðurátt. Þetta þykja okkur lítil og veik rök þegar miðað er við hvað er í húfi fyrir íbúa hverfisins sem eiga að lifa við óþolandi högghljóð um aldur og æfi fyrir vikið. Og þau rök veikjast enn frekar þegar benda má á að hægt er að hafa af- og aðreinar til að tengja stokkinn við yfirborðið, þó svo að meginstraumur umferðar haldi áfram neðan jarðar alla leið austur undir Kringlumýrarbraut. Það hefur verið áætlað að umferð á hringtorginu í alla beygjustrauma geti verið um 10.000 bílar á sólarhring og því ætti umferð um slíkar af- / aðreinar einungis að vera brot að þeim heildarfjölda sem annars færi um tvo gangamunna í núverandi frumdrögum, auk þess sem hraði á slíkum reinum er miklu lægri en á hraðbrautinni sem annars myndast ofanjarðar.

Í tengslum við kortlagningu á hávaða í Danmörku við innleiðingu á ES reglugerð um hávaða hefur líkum verið leitt að tengslum milli hávaða frá umferð og tilfellum af háum blóðþrýstingi og hjartasjúkdómum. Samkvæmt WHO, alþjóða heilbrigðisstofnuninni getur hávaði frá umferð leitt til óþæginda og til sjúkdóma eins og samskiptasjúkdóma, höfuðverkja, svefnvandræða, stress, hás blóðþrýsings, aukinnar áhættu á hjartasjúkdómum og hormónaáhrif. Hávaði getur haft áhrif á afköst fólks og getu barna til að læra. Hávaði hefur því neikvæð heilsufarsáhrif á fólk og langvarandi ívera getur leitt til raunverulegra heilsuvandamála.

Það er ljóst að gríðarlega miklir hagsmunir íbúa í Hlíðahverfi eru undir í þessum frumdrögum og að enn á ný eru hagsmunir bíla teknir fram yfir hagsmuni manna. Þessu verður að linna og Íbúasamtök 3. hverfis gera skýlausa kröfu um að niðurgrafni stokkurinn verði látinn fara ALLA leið í gegnum hverfið og Hlíðarnar þannig loksins sameinaðar á ný, hávaðalaust.


- - - -

Hilmar Sigurðsson er formaður Íbúasamtaka 3. hverfisTil baka