Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Borgar sig að búa miðsvæðis?

Eftir Pálma Finnbogason

Eins og komið hefur fram er fasteignaverð miðsvæðis í borginni talsvert hærra en gengur og gerist í úthverfum höfuðborgarsvæðisins. Að einhverju leyti má rekja það til þess að stór hluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu sækir vinnu miðsvæðis og metur því meðal annars styttri ferðatíma á vinnustað til fjár við kaup á fasteignum. Meðalfermetraverð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu árið 2005 var um 202 þúsund kr. á meðan fermetraverð utan þess var nokkuð lægra þó mismunurinn færi vissulega eftir svæðum.

Greiningardeild KB Banka hefur metið kostnað aukins ferðatíma til vinnu. Þá er miðað við að fórnarkostnaður ferðatíma séu þau laun sem fengjust í vinnu og viðbótar rekstrarkostnaður bifreiðar. Ef miðað er við viðbótarakstur upp á 10 km á dag og 24 mínútur í ferðatíma þá er kostnaður yfir árið um 212 þúsund kr. miðað við meðaltímakaup árið 2005 uppreiknað og rekstrarkostnað bifreiðar á km eða um 18 þúsund krónur á mánuði. Upplýsingar um meðaltímakaup árið 2005 fengust frá Hagstofu Íslands og rekstrarkostnað bifreiðar frá FÍB. Í meðfylgjandi töflu má sjá kostnað miðað við daglega keyrslu til og frá vinnu á mánuði og yfir árið. Þar kemur einnig fram hversu hátt íbúðlán væri hægt að taka til viðbótar ef þessi kostnaður væri ekki til staðar. Þannig væri einstaklingur jafn vel settur að kaupa um 3,5 m. kr. dýrari íbúð og sleppa við 10 km akstur til og frá vinnu og ef um 20 km daglegan akstur væri að ræða jafngilti það um 7 m. kr. dýrari íbúð.

Samband ferðakostnaðar og fasteignaverðs

Tökum dæmi um einstakling sem vinnur nálægt miðbæ Reykjavíkur og hefur val um kaup á fasteign miðsvæðis eða í úthverfum borgarinnar. Kaupi hann 100 fermetra íbúð í Grafarholti væri hún að meðaltali 2 m. kr. ódýrari en íbúð af sömu stærð miðsvæðis í Reykjavík. Fjarlægð frá miðsvæði Reykjavíkur er um 9 km og því væri þetta keyrsla upp á 18 km á dag til vinnu. Ef miðað er við um 2 km keyrslu frá heimili miðsvæðis væri þetta viðbótarakstur upp á 16 km. Ferðakostnaður við keyrslu í vinnu væri þá um 340 þúsund á ári eða um 28 þúsund á mánuði sem jafngildir afborgun af um 5,6 m. kr. íbúðaláni. Með öðrum orðum myndi borga sig fyrir einstaklinginn að búa miðsvæðis og kaupa 2 m. kr. dýrari íbúð ef einungis er litið á kostnað við keyrslu til vinnu.

Heimildir: Greining KB-banka: Sérefni um fasteignamarkaðinn.  Nóvember 2006.Til baka