Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Það þarf að bregðast við strax – heilsa íbúa er í húfi!

Í Morgunblaðinu hafa að undanförnu birst upplýsandi og fróðlegar greinar um svifryk og mengun í Reykjavík, afleiðingar hennar og ástæður. Það verður ekki sagt annað en að þær upplýsingar sem þar koma fram eru virkilegt áfall fyrir yfirvöld og íbúa borgarinnar.

Ekki einasta er svifryksmengun töluvert meiri en við höfum haldið, heldur kemur fram í viðtali við Þórarinn Gíslason lækni, að magn niturdíoxíðs (NO2) er mest í allt að 200 metra fjarlægð frá stofnbrautum. “Þetta magn getur haft heilsufarslegar afleiðingar sé litið til þess að langvinn berkjubólga er algengari í nálægð við mikla bílaumferð þar sem loftmengunin er almennt meiri." segir Þorsteinn í viðtali við Morgunblaðið.

Með þetta í huga, þá höfum við kannað áhrifasvæðið í 3. hverfi – Hlíðum, Holtum og Norðurmýri, frá þeim þremur stóru stofnbrautum sem skera hverfið niður í litlar eyjar og gerum jafnframt ráð fyrir að stofngöturnar Snorrabraut og Langahlíð beri með sér 100 metra áhrifasvæði, þar sem mengun NO2 mælist í hæstu gildum. Og niðurstaðan er virkilegt áfall fyrir hverfið og íbúa þess. Um 70% húsa í syðri hluta Hlíðahverfis og 95% húsa í Suðurhlíðum eru innan þessa áhrifasvæðis og stór hluti nyðri hluta hverfisins. Í hverfinu búa yfir 10.000 manns þannig að áætla má að meira en 6.000 íbúar eru mjög reglulega áreittir af alvarlegri mengun yfir heilsufarsmörkum.

Það er  ljóst að ástand mengunarinnar í 3. hverfi er grafalvarlegt og það ber að grípa til aðgerða nú þegar. Sú augljósasta er að banna nú þegar nagladekk í borginni en þau valda um 65% af svifrykinu. Til að vinna bug á niturdíoxíð menguninni verður að hægja á umferðinni, því niturdíoxíð verður til við bruna á eldsneyti  bílvéla og því hraðar sem bílum er ekið, því meira verður til af þessu eitri sem er reglulega er spúið yfir þúsundir íbúa 3. hverfis í magni sem er langt yfir heilsufarsmörkum. Með öðrum orðum þarf að hverfa frá hraðbrautastefnu þeirri sem borgaryfirvöld hafa haft að leiðarljósi allt of lengi.

Það alvarlegasta í þessu máli er þó sú staðreynd að allir barnaskólar hverfisins eru innan þessa áhrifasvæðis og 5 af 7 leikskólum þess. Það getur ekki verið eðlilegt né sanngjarnt að börnin okkar séu fórnarlömb slíkrar mengunar, hvort sem þau eru heima, úti við leik eða í skólastarfi. Það þarf að bregðast við núna með því að hægja á umferð og banna nagladekk. Við að banna nagladekkin hverfur 65% svifryks og við að hægja á umferð minnkar magn NO2 í andrúmslofti.

Samhliða þessu þarf að breyta ferðavenjum okkar borgarbúa. Meira en helmingur bílferða er styttri en 2 km og þriðjungur undir einum km. Það tekur um 10 mínútur að ganga kílómetrann og um 2 mínútur að hjóla. Leggja þarf  hjólabrautir og fara að líta á reiðhjólið sem samgöngutæki, ekki eingöngu frístundatæki eins og nú er og glögglega má sjá á legu reiðhjólastíga í borginni. Auka þarf notkun almenningssamgangna og fyrsta skrefið í þá átt er hreinlega að leggja af fargjöld í strætó. Kostnaðurinn af því er smávægilegur miðað við þann kostnað sem getur orðið vegna  öndunarfærasjúkdóma sem eru óhjákvæmilegar afleiðingar mengunar. Hraðbrautirnar Miklubraut og Kringlumýrarbraut þarf að leggja í yfirbyggða stokka og þannig gefst tækifæri til að temja þá mengun sem af þeim er og íbúar losnað við þó óþolandi mengun sem hávaði frá brautunum er.

Samtímis þessum aðgerðum verðum við að breyta hugarfari heillar borgar. Fá fólk til að skilja að við erum komin út úr öllum kortum með samgöngumynstri okkar og ef við snúum ekki við blaðinu núna, þá getur það orðið of seint.

- - -

Hilmar Sigurðsson
formaður Íbúasamtaka 3. hverfisTil baka