Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Miðgarður / Miklatún

Á haustmánuðum birtist viðtal í fréttaþættinum Kompás við hin frægu Jóa og Guggu. Þau eru, eins og margir vita, eiturlyfjaneytendur, sprautufíklar á götunni. Þetta ágæta viðtal var tekið á Miklatúni og þau sýnd meðhöndla eiturlyf í sól og blíðu. Um leið og þau sprautuðu sig, kom unaðssvipur á þau og sólin lék við andlit þeirra. Um leið og þau drógu sprautunálarnar úr handleggjunum og græn laufin bærðust í haustgolunni og í bakgrunninn mátti sjá litla Valsdrengi á fótboltaæfingu.

Þar sem þessar myndrænu andstæður mættust varð mér hugsað til rúmlega fjörutíu ára gamalla teikninga Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts sem gerði ráð fyrir að hinn íslenski Miðgarður hefði kannski markvissari tilgang en nú er. Reynir Vilhjálmsson hefur augljóslega verið afar metnaðarfullur arkitekt þar sem hann gerði ráð fyrir að Miklatún, eða Miðgarður eins og hann kallaði garðinn, yrði notaður af fjölskyldufólki í meira mæli en nú er. Hann teiknaði upp bíótjald, bátapoll, tennis- og golfvelli, leik- og tónlistasvið, boltavelli og hjólabrettasvæði. Víst er svo að garðurinn er notaður fyrir æfingar hjá knattspyrnufélögum, herþjálfun fullorðinna og fólk gengur og hjólar í gegn en ekki skal vanmeta nýtni fíkla og drukkna einstaklinga. Hafa börn kvartað yfir áreitni þeirra síðast nefndu og þá sérstaklega á sumrin enda hinir fínustu bekkir til að sitja og þjóra á og ræða um menn og málefni.

Ég tel að það sé löngu tímabært að gera eitthvað úr garðinum. Nú þegar er listasafn þar. Það er mitt mat að nú er komin tími til að ákveða hvað gera skuli við garðinn, hvort hann eigi að standa þarna og sinna andstæðum þörfum borgarbúa eða hvort nýting hans eigi að beina í ákveðin farveg með markvissri og metnaðarfullri uppbyggingu. Það er vonandi að hinn nýji meirihluti í Reykjavík opni augun fyrir Miklatúns/Miðgarðs perlunni og hafi vilja til þess að fjölskylduvæða þessa annars niðurníddu náttúrugersemi í hjarta borgarinnar. Ekki væri verra að taka mið af hugmyndum Reynis Vilhjálmssonar og gera þar með lífgunartilraunir á hlutverki garðsins.

- - -

Guðrún Hulda Aðils Eyþórsdóttir
er í stjórn Íbúasamtaka 3. hverfisTil baka