Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Hvað er að ske með Austurbæ?

Metnaðarfull áform eða byggingabrask?

Íbúar í Norðumýri, aðrir íbúar í hverfinu og Reykvíkingar allir horfa stöðugt vongóðir til Austurbæjar við Snorrabraut.
Hvað er í gangi þar nú? Borgarbúar glöddust á sínum tíma yfir metnaðarfullum áformum Nýsis hf. sem kynnt voru þegar fyrirtækið keypti Austurbæ og leysti húsið þar með úr áralöngum álögum og vanhirðu fyrri rekstraraðila. Hér skyldi koma stórendurbætt samkomu- og menningarhús. Allir voru glaðir; Nýsir hf., borgaryfirvöld og íbúarnir.

En ekkert bólar enn á þessum framkvæmdum.

Er Nýsir hf.,  þróunarfélag með milljarðaframkvæmdir út um öll lönd, að guggna nú? Eru viðhorfin að breytast? Hversvegna?
Hvatt er til að borgaryfirvöld og íbúar haldi vöku sinni í málinu.

Tilefni þessara orða er fundur sem fyrirtækið boðaði til með forsvarsmönnum íbúasamtakanna „Lifi Norðurmýrin“ sem eru grasrótarsamtök íbúa á svæðinu. Fundurinn varðaði áhuga félagsins á nýrri húsabyggingu að baki Ausurbæjar, svokölluðum Njálsgötureit. Gamalt mál og útkjáð fyrir nokkrum árum þega Borgarstjórn samþykkti að heimila ekki byggingar á svæðinu.

Njálsgötureiturinn er grænt svæði á aðalskipulagi borgarinnar. Það er nú gjarnan nýtt sem útivistarsvæði; og er mikils virði sem slíkt, en nýtur ekki náðar yfirvalda grænna mála borgarinnar í viðhaldi, fremur en all nokkur slík. Þar er einnig gæsluvalarlóð. Njálsgötureitur er góður reitur sem gæti verið miklu betri.

Vísað er til eftirfarandi bókunar úr fundargerð frá stjórnarfundi íbúasamtaka 3. hverfis þann 8. maí s.l.:

4. Skýrsla: Njálsgötureitur. Íbúar boðaðir á fund v/hugsanlegra framkvæmda.

Haukur skýrði frá málefnum Íbúasamtakanna „Lifi Norðurmýrin“. Hann hafði verið boðaður sem formaður samtakanna á fund eignaraðila Austurbæjar, Nýsis hf. þróunarfélags þann 23. apríl. s.l. Þar kynnti framkvæmdastjóri þróunarfélagsins áhuga Nýsis á hugsanlegum byggingaframkvæmdum á reitnum til fjármögnunar á kostnaðarsamri endurgerð Austurbæjar. Haukur gerði hinsvegar grein fyrir viðhorfum íbúanna á svæðinu og hvatti til að Nýsir leitaði annarra leiða með fjármögnun sína og gróða, en þær sem væru beinlínis á kostnað íbúanna í nágrenninu og lífsgæða í hverfinu. Jafnframt var vísað til ákvörðunar Borgarráðs um að ekki stæði til að heimila húsbyggingar á reitnum, enda grænt svæði samkvæmt aðalskipulagi. Á þessum fundi með Nýsi benti Haukur einnig á ályktanir og tillögur íbúasamtakanna „Lifi Norðurmýrin“ varðandi umræddan reiti og frekari uppbyggingu hans sem skrúðgarðs/ útivistarsvæðis,  en þær voru sendar viðeigandi borgaryfirvöldum.
Hvatt var til að íbúar haldi vöku sinni í málinu.

Fundargerðin er birt í heild sinni hér á heimasíðunni.

- - -

Haukur Haraldsson
stjórnarmaður í Íbúasamtökum 3. hverfisTil baka