Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Lífsgæði íbúa einskis metin

Á fundi Umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar þann 26. febrúar senda borgaryfirvöld meira en 12.000 íbúum í Hlíðum, Holtum, Norðurmýri og Háleitishverfum skilaboð um að lífsgæði þeirra séu nær einskis metin. Á þeim fundi voru kynntar fyrirætlanir borgaryfirvalda varðandi mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Skilaboð borgaryfirvalda eru skýr; auka á loft- og hávaðamengun sem er þó óbærileg fyrir. Hagsmunum meira en 12.000 íbúa eru engin skil gerð. Réttur íbúa á öllum aldri til að komast greiðlega um hverfið og sækja nærþjónustu vigtar ekkert í kröfulýsingu. Samráð við íbúa í hverfunum hefur ekkert verið. Lausnin er eingöngu unnin á forsendum bílaumferðar og allt annað látið víkja. Með þessu eru borgaryfirvöld að skapa umsátursástand og grafa málið í skotgrafir í anda gamaldags stjórnsýslu í stað þess að vinna málið opið og í samráði við þá sem allra mestra hagsmuna eiga í málinu; íbúa á svæðinu.

Íbúasamtök 3. hverfis hafa nú í á þriðja ár óskað eftir samráði við borgaryfirvöld um þessi mál. Á meðan kjörnir fulltrúar eru í pólitískum sandkassaleik hafa verkfræðingar með síðustu aldar hugsanahátt að leiðarljósi fengið að leika lausum hala og komið upp með lausnir sem í engu mæta sjálfsögðum nútíma kröfum um lífsgæði í borg. Kröfulýsingu er skammarlega ábótavant, því ekki hefur verið leitast við að lýsa eða skilgreina kröfur þeirra sem mest eiga undir, íbúanna sjálfra. Augljósasta dæmið um þetta er tölvumyndin af gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar eftir breytingar. Þar má glöggt sjá að ekki er gert ráð fyrir gangandi, eða hjólandi umferð við þau gatnamót, sem þó sannarlega mynda hjarta Hlíðanna og ætti að vera iðandi af mannlífi á yfirborðinu og tengja íbúasvæðin við Miklatún. Að sjálfsögðu sést ekki einn einasti íbúi á myndinni, því þeir verða væntanlega allir áfram í bílunum til að komast um sundurskorið hraðbrautahverfið. Gangandi- og hjólandi umferð vill líka greiðar og beinar leiðir. Hringtorg og flóknar gönguleiðir eru alls ekki til að greiða þær, né til að hvetja fólk til að koma úr bílum og velja aðrar og umhverfisvænni samgöngulausnir.

Í dag eru Hlíðarnar skornar af þremur hraðbrautum í 5 litlar eyjar sem hver um sig getur ekki staðið undir sjálfsagðri nærþjónustu. Hraðbrautalausnin sem nú er kynnt styrkir þetta ástand því Miklubraut og Kringlumýrarbraut eru að stórum hluta í opnum gjám með tilheyrandi aukningu á hávaða- og loftmengun. Yfir 60% af 3. hverfi Reykjavíkur er innan mesta áhrifasvæðis slíkar mengunar skv. rannsóknum Þórarinns Gíslasonar, læknis og fleiri. Innan þessa svæðis eru allir skólar hverfisins og 5 af 7 leikskólum. Þetta ástand ætla borgaryfirvöld að fastsetja til framtíðar samkvæmt þessum hugmyndum. Gangandi og hjólandi eru ætlaðar flóknar leiðir upp og niður í gegnum tröllaukin hraðbrautamannvirki. Forgangur bíla er algjör. Forgangsröðun áætlana staðfesta þetta svo enn frekar en reiknað er með að byrja á tröllauknum gatnamótum sem auka bara á vandann og síðar á að fara í að leysa raunverulegu vandamálin.

Hlíðarnar eru það hverfi sem borgaryfirvöld ættu að geta bundið hvað mestar vonir við að bæta óheilbrigt samgöngumynstur borgarinnar þar sem eingöngu er einn í bíl í yfir 90% ferða. Mynstur sem sér yfir þriðjung bílferða undir einum kílómetra og meira en helming undir 2 km.  Íbúar í Hlíðum búa í þægilegri göngu- og hjólafjarlægð frá miðborginni þar sem yfir 40% starfa á höfuðborgarsvæðinu eru. Mengun í Hlíðum er allt að 40% meiri en á Grensás skv. nýlegum mælingum og að meðaltali 25% meiri en á Grensás, sem á þó að vera að mæla hæstu gildi í borginni. Hávaði í nágrenni þessara stórfljóta er þegar á heilsufarsmörkum. Nú á að grafa fljótin niður í opnar gjár að stórum hluta og opið hringtorg í formi gjallarhorns rís til himins í miðju. Í nær þriggja metra hæð yfir núverandi plani verður hátt í 40 þúsund bíla umferð og greiðir þannig enn frekar fyrir leið umferðarhávaða yfir nærliggjandi íbúabyggð.

Þessi lausn sem nú er kynnt mætir ekki þeim sjálfsögðu kröfum að lausnin þurfi að bæta lífsgæði íbúa, greiða leiðir og setja í forgang gangandi- og hjólandi umferð, að draga verulega úr loft- og hljóðmengun, og að sameina Hlíðarnar í eitt hverfi. Stór og opin gjá frá gatnamótum og niður að Stakkahlíð mun skapa gettó ástand í nærliggjandi götum og við munum sjá nákvæmlega sömu hluti gerast og í borgum þar sem slíkar lausnir hafa orðið ofan á. Íbúar sem eygðu möguleika á að nota annan samgöngumáta en bílinn, hverfa allir aftur inn í bílana og bæta við þegar algjörlega óviðunandi ástand. Eða flytjast á brott og taka þátt í bílalestinni löngu hvern dag.

Þær hugmyndir sem borgaryfirvöld hafa sett á dagskrá styrkja enn frekar þá staðreynd að það eru borgaryfirvöld sem velja bílinn, ekki borgararnir. Stjórn Íbúasamtaka 3. hverfis krefst þess að borgaryfirvöld boði þegar til opins kynningarfundar um málið og að raunverulegu samráði verði komið á við helstu sérfræðinga í málinu; íbúana sem búa við þessi hraðbrautamannvirki. Þeir eiga betra skilið en meiri mengun og minni lífsgæði.

Hilmar Sigurðsson
formaður Íbúasamtaka 3. hverfisTil baka