Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Blekkingar borgaryfirvalda

Reykjavíkurborg hefur lagt fram tillögur að mislægum gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og hálfum stokk á Miklubraut í gegnum Hlíðahverfið. Þegar farið er að rýna í tillögur borgaryfirvalda kemur margt í ljós sem ekki er augljóst í því kynningarefni sem borgin hefur sent frá sér. Og allt eru það hlutir sem skerða lífsgæði íbúa í Hlíðum eða hreinlega standast ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíks nýskipulags í íbúðahverfum.

Hringtorg sem fyrirhuguð eru við Stakkahlíð og Lönguhlíð rísa upp yfir núverandi götuhæð og tillögur borgaryfirvalda gera ráð fyrir að gangandi umferð eigi að fara um undirgöng sem liggja á milli yfirborðsgötu og stokkalausna. Það er því fyrirhugað að gera fjölmörg undirgöng í gegnum hringtorgin í stað þess að láta gangandi umferð hafa forgang á yfirborðinu. Þessum lausnum er í nær engu lýst í kynningarefni borgarinnar utan þess að borgaryfirvöld blekkja vísvitandi með því að sýna gatnamót Lönguhlíðar úr töluverðri hæð, eins og reyndar megnið af kynningarefninu. Og gleyma að geta þess að þar eigi að fara a.m.k. 23.000 bílar um daglega, eftir breytingar. Á engum myndum er reynt að myndgera þau stórfljót umferðar sem eftir verða ofanjarðar og eðlilegt hefði verið að telja að ætti að fara neðanjarðar um hverfið. Gangandi vegfarendur eru sendir flóknar leiðir í gegnum óteljandi undirgöng sem hafa sýnt sig að hafa fælingarmátt, skapa óöryggi og draga í sig mikla mengun. Gangnamunni við Stakkahlíð er hvergi sýndur og hvernig hringtorgið þar rís yfir núverandi plan né heldur hvernig gangandi umferð er ætlað að fara undir rampa með 15.000 bíla dagsumferð og beint yfir gangnamunnann þar sem gert er ráð fyrir a.m.k 36.000 bílum á dag.

Forsendubrestur borgaryfirvalda er enn ljósari þegar hljóðútreikningar borgarinnar eru rýndir. Allar tölur sem notaðar eru í útreikningum miða við núverandi umferðamagn, en á sama tíma kemur fram í tillögum borgarinnar að umferð á Miklubraut vestur vaxi í 59.000 bíla, úr núverandi 44.000, eða um 35%. M.ö.o. eru notaðar forsendur sem lýsa allt öðru en veruleikinn verður, komi til þessara framkvæmda. Fleiri dæmi má nefna. Gert er ráð fyrir að þung ökutæki á Miklubraut verði 5% en í umferðartalningu 2004 kemur í ljós að slík umferð er 10%. Einnig gera forsendur ráð fyrir að umferð á hraðbrautinni í fríu flæði fari á 60 km/klst.?!? Á Miklubraut við Stakkahlíð í dag er meðalhraði umferðar á tímabilinu 7-19, 59 km/klst og þar er hámarkshraði 60 km/klst. Þrátt fyrir þessar gölluðu forsendur, verður ekki eitt einasta hús við hraðbrautirnar innan leiðbeiningarmarka reglugerðar 933/1999 um jafnaðarhljóðstig í íbúðabyggð sem er 45 dB. Og þau eru teljandi á fingrum annarar handar sem ná því að vera innan hámarks hljóðstigi skv. sömu reglugerð, eða 55 dB. Og sem fyrr er í útreikningum borgarinnar aldrei rigning og engir nelgdir hjólbarðar, sem þó er sannað að hækki hljóðstig um 2-4 dB.

Á sama hátt er illa lýst þeirri risavöxnu gjá sem fyrirhugað er að nái frá Kringlu, í gegnum gatnamótin og allt niður undir Stakkahlíð. Þessar gjár munu skapa gettó áhrif og tryggja enn frekari einangrun hinna litlu eyjahluta Hlíðanna. Sama er upp á teningnum þegar rýnt er í tillögur á Kringlumýrarbraut. Gangandi eru ætlaðar leiðir í mengunarskýjum og ærandi hávaða sem gellur yfir nærliggjandi íbúðabyggð.

Borgaryfirvöld reikna “sparnað” vegna slysa á hinum nýju tröllauknu gatnamótum á Kringlumýrarbraut og Miklubraut umtalsverðan. Borgin notast við meðaltal slysa 2002-2006 sem á engan hátt sýna núverandi ástand eftir breytingar sem gerðar voru 2005. Staðreyndin er sú að slysatíðni hefur lækkað umtalsvert og slysakostnaður á gatnamótunum árið 2007 er ekki nema 12,7% af því sem hann var 2002, skv. tölum Umferðarstofu.

Borgaryfirvöld taka svo endanlega steininn úr með því að kalla þessa hraðbrautalausn umhverfislausn. Ráða má af gögnum að gangnamunnar munu verða eins og stóriðjustrompar án mengunarvarna í miðju íbúðahverfi þegar umferðin dregur mengunina út með sér. Áhrifasvæði mengunar frá hraðbrautum er að lámarki 200 m og allt að 500 m skv. rannsóknum. Ljóst er að hraða- og umferðaraukning eftir framkvæmdir mun auka mengun umtalsvert í Hlíðum, og er hún þó nálægt fjórðungi meiri þar að meðaltali en á Grensás og yfir mörkum reglugerðar 252/2002 m.v. nýjustu mælingar.

Það er því alveg ljóst þessar tillögur Reykjavíkurborgar munu á engan hátt bæta lífsgæði íbúa í Hlíðum, heldur þvert á móti rýra þau umtalsvert. Íbúar í Hlíðum trúa því ekki að það sé vilji borgarbúa að lífsgæði yfir 12.000 íbúa í Hlíðum og Háaleiti séu svo stórlega skert til frambúðar. Eingöngu til þess að umferðin komist þessa 800 metra í gegnum hverfið án þess að eiga á hættu að stoppa á ljósum í eins og eina mínútu, eða vera 20 sekúndum lengur í gegn á grænni ljósabylgju.

9 af hverjum 10 íbúum í Hlíðum vilja ekki þessa lausn sem nú er kynnt. Þeir vilja raunverulega bót á lífsgæðum í borg. Þessi lausn færir þeim þau ekki. Hringbrautin er sorglegur bautasteinn slíkara lausna. Það þarf að hugsa málið upp á nýtt.

Hilmar Sigurðsson
formaður Íbúasamtaka 3. hverfisTil baka