Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Útisundlaug við Sundhöllina

Mig langar til að vekja athygli á þeim möguleika að byggja útisundlaug við Sundhöllina í Reykjavík. Tillögur þess efnis hafa áður komið fram í fjölmiðlum og hugmyndir arkitekta að viðbyggingu Sundhallarinnar birtust í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum.

Ég er fædd og uppalin hér í Norðurmýrinni, mínir tveir strákar hafa gengið í Austubæjarskólann og öll höfum við nýtt okkur Sundhöllina á liðnum árum. Sundhöllin er merkileg bygging og hefur staðist tímans tönn, búnigsklefar og sturtuaðstaða þar er sambærileg flestum nýjum sundlaugum.

Í búningsklefum er reyndar pláss fyrir mun fleiri notendur en sækja laugina.
Byggist það líklega á því að í upphafi þegar Sundhöllin var nýbyggð þá var mikil aðsókn og sundgestir fengu einungis takmarkaðan tíma í lauginni. Öllu var stýrt með númerum og tímakvóta, svo búningskefarnir þurftu að vera nógu margir fyrir þá sem voru á leiðinni oní, þá sem voru á leið uppúr og þá sem voru oní ! !

Þess vegna hefur mér allaf fundist svo gráupplagt að bæta við útilaug við Sundhöllina. Grasflötin sunnan við húsið er nægilega stór fyrir útilaug, liggur vel við sólu og væri dásamleg viðbót.

Íbúar hverfisins myndu hittast í lauginni og efla hverfisandann og foreldrar þyrftu ekki lengur á sumrin að keyra börnin í Laugardals- eða Vesturbæjarlaug eins og nú er raunin.

Nú las ég í 24 stundum að áformað sé að taka þetta svæði undir bílastæði og/eða göng til að tengja saman þjónustu heilbrigðisstofnanna á næstu lóðum. Hvernig var ekki alveg augljós í grein blaðsins en mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessu, og legg það til að íbúar og hverfissamtök sem að Sundhöllinni standa leggist á eitt með að vinna að þessu máli.

Það væri mikið skipulagsslys ef möguleikinn til að stækka og bæta útilaug við Sundhöllina færi þannig forgörðum. Nú er verið að byggja á hverri auðri lóð hér á miðbæjarsvæðinu, þá tel ég Norðurmýri og Holtin með, og þétting byggðar er í hámarki.

Það er ekki nóg að segja að fólk vilji búa í námunda við kaffihúsin, það þarf líka að bjóða íbúum uppá þá sömu þjónustu og er í öðrum hverfum borgarinnar.

Aðstaða barna og unglinga í þessu hverfi til tómstunda, íþrótta og útivista er slakari en í mörgum nýrri hverfum. Langt er í félagsmiðstöðvar, íþróttahúsið (Vodafónhöllin) er handan við þvílíkar umferðarflækjur og "grænum" óskipulögðum flötum fækkar óðum.
Við íbúar Miðborgar, Norðurmýrar, Holta og Hlíða þurfum að standa vörð um þennan dýrmæta möguleika og vinna að því að koma honum í framkvæmd.

Sólveig Aðalsteinsdóttir, myndlistakona.Til baka