Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Svifryksmengunarkvóti ársins 2008 er uppurinn

Ímynd Reykjavíkur sem hreinnar borgar hefur beðið hnekki á undanförnum árum. Við höfum löngum getað státað okkur af hreinu vatni og lofti á Íslandi. Nú er svo komið að í Reykjavík hefur svifryk mælst 20 sinnum yfir heilsufarsmörkum á þessu ári. Samkvæmt reglugerð 251/2002 má fjöldi daga þegar mengun fer yfir heilsufarsmörk vera að hámarki 18 á yfirstandandi ári. Árið 2010 má mengun fara að hámarki 7 daga  yfir heilsufarsmörk. Það er ljóst að loftgæði sem íbúar í borginni búa við eru óásættanleg. Fyrirsjáanlegt er að yfirvöldum í Reykjavík er nauðugur einn kostur að grípa nú þegar til afgerandi aðgerða til að tryggja þúsundum íbúa í Reykjavík viðunandi loftgæði.

Velkist einhver í vafa um skaðsemi og kostnað af völdum loftmengunar, má benda á niðurstöður fjölmargar erlendar rannsókna sem ber að sama brunni. Mengun af völdum umferðar getur verið stórskaðleg heilsu almennings en þó sérstaklega heilsu barna og unglinga. Mengun af völdum umferðar getur haft áhrif á lungnaþroska barna sem eru viðkvæmari fyrir umferðarmengun. Það skýrist m.a. af því að börn anda frekar með munninum en í gegnum nasir, auk þess sem öndun barna er örari en hjá fullorðnum. Vegna þessa geta svifryksagnir borist dýpra í lungu barna en fullorðinna með alvarlegum heilsufarslegum afleiðingum fyrir þau. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að mengun af völdum umferðar eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Á hverju ári deyja þrefalt fleiri í heiminum af völdum mengunar frá umferð en af völdum umferðarslysa.

Ótalinn er kostnaður af völdum umferðarmengunar. Ef miðað er við áætlaðan samfélagslegan kostnað Torontoborgar í Kanada af völdum mengunar frá umferð má ætla að samfélagslegur kostnaður á höfuðborgarsvæðinu sé um 30 milljarðar króna árlega. Þess má geta að ársgildi svifryksmengunar í Reykjavík og Toronto voru mjög svipuð árið 2004 skv. tölum WHO.

Meginuppspretta svifryksmengunar í Reykjavík er af völdum umferðar og er þáttur nagladekkja þar lang stærstur. Fleiri þættir koma þó til svo sem umferðarhraði, gerð eldsneytis, ófullnægjandi mengunarvarnir í bifreiðum, veðurfar, staðbundnar aðstæður, ofl. Almennt er talið að umferð sem ekki gengur í jöfnu flæði mengi meira. Mælistöð Umhverfisstofu Reykjavíkur er staðsett við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar og er ætlað að mæla hæstu gildi í Reykjavík. Í desember og janúar sl. var færanleg mælistöð staðsett í Stakkahlíð við Miklubraut og þar mældist svifryksmengunin 22,6% meiri en á Grensás. Við Stakkahlíð er umferð óhindruð og að meðaltali á yfir 60 km hraða á klukkustund. Þessar niðurstöður ganga því þvert á almennar fullyrðingar um að umferð í fríu flæði mengi minna.

Að sjálfsögðu þarf að rannsaka þennan mun betur og væntanlega eru margar ástæður fyrir honum. Hinsvegar stendur eftir sú staðreynd að börnum í sumum hverfum Reykjavíkur er boðið upp á alsendis ófullnægjandi loftgæði og lífsgæði. Í rannsókn sem Þórarinn Gíslason, lungnalæknir, og fleiri stóðu fyrir kom skýrt fram að það er jafnmikil mengun, hvort sem fólk býr í 20 eða 200 m fjarlægð frá stofnbrautum. Erlendar rannsóknir leiða jafnframt líkum að því að börn geti hlotið skaða af mengun frá umferð í allt að 500 m fjarlægð frá stofnbrautum. Það er því ljóst að tugþúsundum Reykvíkinga standa ekki til boða ásættanleg loftgæði í dag.

Það er ljóst að hið óheilbrigða samgöngumynstur sem er í Reykjavík í dag er meginorsök þess vanda sem nú blasir við. Við íbúar notum bílinn til nær allra okkar ferða. Yfir helmingur ferða í bíl í Reykjavík er undir 2 km að lengd og yfir þriðjungur ferða er undir 1 km að lengd. Það tekur um 12 mínútur að ganga 1 km og það tekur um 4 mínútur að hjóla sömu vegalengd. Með því að breyta samgönguvenjum sínum geta íbúar gert heilmikið til að bæta óásættanlegt loftgæði í borginni.

Borgaryfirvöld bera líka mikla ábyrgð með sinni skipulagsstefnu. Sú stefna sem rekin hefur verið í Reykjavík um áratuga skeið hefur beðið skipsbrot með þessum niðurstöðum. Sú staðreynd að sífellt er verið að greiða fyrir umferð ökutækja á meðan lítið hefur verið gert í að efla og greiða götur gangandi og hjólandi umferðar á sinn stóra þátt í þessu ásamt því það blasir við að efla þarf vistvænar almenningsamgöngur verulega svo þær verði raunverulegur valkostur. 

Með aukinni umferðarrýmd hefur hraði á götum borgarinnar aukist umtalsvert og sá markvissi aðskilnaður sem hefur verið gerður á umferð bifreiða og umferðar hjólandi og gangandi hefur einnig stuðlað að þessu sama. Og í öllum tilfellum hefur þessi umferðarrýmd verið til að greiða bifreiðum leið en orðið til að torvelda eða hreinlega hindra aðra umferð. Þessi stefna hefur verið framkvæmd í nafni umferðaröryggis en er ástæða þess að í dag ógna loftgæði í Reykjavík lífi og heilsu barna okkar.

Borgaryfirvöld og íbúar þurfa að gípa til afgerandi aðgerða nú þegar. Svifrykskvótinn fyrir 2008 er uppurinn.

Birgir Björnsson er formaður Íbúasamtaka Háaleitishverfis.
Hilmar Sigurðsson er formaður Íbúasamtaka 3. hverfis – Hlíðar, Holt og NorðurmýriTil baka