Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Þolinmæðin er þrotin!

Svifrykskvótinn 2009 er uppurinn og hávaðamengun er enn að þjaka þúsundir íbúa í Hlíðum!

Svifryk í mælingum Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar á Grensásvegi hefur þegar farið 12 sinnum yfir skilgreind heilsufarsmörk á árinu 2009. Þetta er hámark þess sem má fara yfir heilsufarsmörk á árinu 2009 og 5 skiptum meira en má árlega frá og með næsta ári þegar undanþáguákvæði við reglugerð 251/2002 verða að öllu leiti fallin út.

Íbúasamtök 3. hverfis hafa ítrekað bent á slæmt ástand í hverfinu af völdum mengunar og héldu meðal annars fjölsóttan fund um málið árið 2007. Hinsvegar gengur hægt í því að koma með lausnir sem virka og enn eitt árið er íbúum í hverfinu gert að lifa við óásættanleg loftgæði.

En loftgæðin eru ekki það eina. Hávaðinn af umferðarstórfljótunum þremur sem skera hverfið er einnig óásættanlegur. Í skýrslu sem kom út áriið 1996 og sagt er frá í Morgunblaðinu þann 18. janúar 1997 kemur fram að yfir 2.000 manns lifa við óásættanlega hljóðvist. Á þeim 13 árum sem liðin eru frá því að skýrslan var unnin hafa borgaryfirvöld EKKERT GERT í að bæta hljóðvist meðfram þessum stofnbrautum, þrátt fyrir að hafa ítrekað verið bent á að þau væru óásættanleg.

Það verður ekki annað lesið úr þessari staðreynd að borgaryfirvöld séu að baka sér skaðabótaskyldu með andvara- og aðgerðarleysi sínu og spurning hvort að yfir 2000 íbúar hætti hreinlega að greiða sína skatta til sveitarfélagsins þar til bragabót hefur verið gerð á þessu ástandi og Reykjavíkurborg hefur tekið á ástandinu á viðunandi hátt.

Það er allavega ljóst að tími rökræðna er löngu liðinn. Þrátt fyrir allar þær skýrslur, rannsóknir og annað sem ótvírætt benda á að ástandið er ekki ásættanlegt og ótal fundi, beiðnir, bréf og annað sem hafa farið á milli borgar og íbúa, þá hefur ekkert gerst. 12 ár er einfaldlega of langur tími og því grípa íbúar nú til aðferða sem ætlað er að vekja borgaryfirvöld af áratuga löngum svefni.

- - -

Hilmar Sigurðsson
formaður Íbúasamtaka 3. hverfis – Hliðar, Holt og NorðurmýriTil baka