Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Heimskuleg hönnun breiðgata sem breytt hefur verið í hraðbrautir!

Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg verið að breyta hönnun á stofngötum. Göturnar hafa verið breikkaðar, girðingar settar upp á miðeyjur og “umferðarrýmd” hefur ráðið ferðinni í því að breyta borgargötum í hraðbrautir.

Í stað þess að þróa þessar götur í breiðgötur í borg með trjágróðri á miðeyjum hefur allt verið fjarlægt í og við göturnar og girt fyrir göngu- og hjólaleiðir. Gönguljósum hefur breytt þannig að þau eru nú orðin “þrepaskipt” sem í raun þýðir að það getur tekið gangandi vegfarandur allt að 3 mínútur að komast yfir þessar götur. Búnir hafa verið til krókar og beygjur sem gangandi og hjólandi er ætlað að fara um.

Það væri athyglisvert að bjóða þeim hönnuðum og embættismönnum sem að þessu standa að fara í ferð í rigningu með barnavagn í Hlíðahverfi og ætla þeim að komast yfir Miklubrautina. Ef þeir fara á gönguljós til móts við gamla Tónabæ, þyrftu þeir að bíða í allt að eina og hálfa mínútu eftir gönguljósi yfir aðra akreinina. Síðan þyrftu þeir að hýma á miðeyjunni og láta umferð í báðar áttir gusa yfir sig drullunni á meðan þeir bíða eftir gönguljósinu yfir hina akreinina, í á aðra mínútu. Þrem mínútum síðar er vegfarandinn þá loksins kominn yfir, ausinn drullu.

Það eru svona hugsanavillur sem eru að koma þessari borg á kortið sem menguðust höfuðborg Norðurlandanna. Umferðin hefur allan forgang og á Miklubrautinni á þessum stað er vel yfir 70 km meðalhraði á klukkustund. Það undar því engan að mengunarmælingar á horni Stakkahlíðar og Miklubrautar í kringum áramótin 2007 og 2008 hafi sýnt fram á að mengun í Hlíðum er nær fjórðungi meiri en á Grensásvegi, sem þó á að vera mæla hæstu gildi í borginni.

Þessari þróun þarf að snúa við sem allra fyrst og hætta að hanna hraðbrautir í miðborginni og fara að gera þær að vistlegum breiðgötum sem við þekkjum frá stórborgum erlendis. Bílstjórnarnir verða bara að anda með nefinu finnist þeim þeir komast hægt yfir,eða velja sér aðra búsetu en borg. Borgin okkar þarf að fá að verða að borg, ekki endalausu hraðbrautaúthverfi.

- - -

Hilmar Sigurðsson
formaður Íbúasamtaka 3. hverfis – Hlíðar, Holt og NorðurmýriTil baka