Íbúasamtök 3. hverfis
 

Greinar

Íbúar 3. hverfis eignast sterka rödd

20. janúar 2006

Hverfið okkar er um marga hluti merkilegt. Ekki einasta er það einna heilstæðasta hverfi Reykjavíkur þegar litið er til útlits og arkítektúr þess, heldur eru í því líka útvistarperlurnar í Öskjuhlíð og Nauthólsvík. Svo er í okkar hverfi lystigarðurinn á Miklatúni sem því miður er sárlega vannýttur. Hluti af því vandamáli er aðgengi að Miklatúni en það er sorgleg staðreynd að hverfið okkar er orðið að litlum eyjum sem eru aðskildar af nær ómanngengum stórfljótum umferðar. Miklubraut og Bústaðavegur skera hverfið í þrjár óbrúaðar sneiðar og svo rammar Kringlumýrarbraut það af til austurs.

Þróun í samgöngumálum hefur verið öll í átt að því að gera þessar stofnbrautir að hraðbrautum og um leið er okkur íbúum í hverfinu gert enn erfiðara fyrir að fara um hverfið á eðlilegan hátt og sækja þar nærþjónustu. Nefna má sem dæmi heilsugæsluna sem er í gömlu íbúðarhúsnæði í vestur enda hverfisins, íþróttafélag sem er handan hraðbrauta, þjónustumiðstöð hverfisins liggur utan þess, auk þess sem í hverfinu er engin félagsmiðstöð fyrir ungmenni þess. Íbúar í hverfinu hafa bent borgaryfirvöldum á þá augljósu kosti sem fylgja því að setja stofnbrautirnar sem liggja í gegnum hverfið í yfirbyggða stokka en þetta mál er eitt af helstu baráttumálum okkar nýju íbúasamtaka undir kjörorðinu Sameinum Hlíðarnar.

Það er merkilegur hvati sem liggur að baki stofnunar okkar nýju Íbúasamtaka í Þriðja hverfi Reykjavíkurborgar. Á mörgum stöðum í hverfinu voru íbúar að vinna að framgangi mála sem snertu þá í sínu daglega lífi og oftar en ekki var um skipulags(vanda)mál að ræða sem snertu lífsgæði íbúa. Það var verið að slást við kerfið í mörgum málum og rödd íbúa hafði löngu týnst í umfjöllun og umræðu um hagsmuni þeirra. Pétur V. Maack er einn þessara íbúa og hann var að fylgjast með fleiri íbúum í hverfinu í þeirra baráttu við kerfið. Það var Pétur sem hóaði saman hópi íbúa til að ræða hugmyndina um stofnun samtakanna og á nokkrum vikum varð til grunnurinn að stofnun samtakanna. Við þökkum Pétri þessa framsýni hans.

Nú 2 mánuðum síðar eru samtökin þegar orðin virkt afl í umræðunni í borgarkerfinu og vonandi tekst það markmið okkar að bæta lífsgæði í hverfinu með því að vera virk sem víðast. En til þess þarf þátttöku íbúa. Það er því sérstök ástæða til að hvetja íbúa til að taka þátt í starfi samtakanna, hvort sem er í þeim starfshópum sem þegar hefur verið stofnað til, með því að setja á fót nýja starfshópa eða með því að styðja við starfið á annan hátt. Framundan er borgarafundur í hverfinu þar sem hugmyndin er að fá forsvarsmenn allra framboða í komandi kosningum til ræða málefni hverfisins við íbúa. Þar gefst okkur tækifæri til að heyra um þau málefni hverfisins sem von er á að verði sett á oddinn í komandi kosningum og okkur gefst tækifæri til að láta rödd íbúanna heyrast.

Við búum í góðu hverfi. En gott hverfi má alltaf bæta. Hér í 3. hverfi Reykjavíkur er fjöldi tækifæra til staðar. Það er búið að benda á lausnir til að leysa úr okkar brýnustu vandamálum. Og mikilvægasta af öllu er að við íbúar höfum skoðanir á því hvernig hverfi við viljum búa í og viljum láta rödd okkar heyrast við að skapa þá framtíð sem bíður okkar.

Með góðri nágranna kveðju,

Hilmar Sigurðsson
formaður Íbúasamtaka 3. hverfis.Til baka