Íbúasamtök 3. hverfis
 

Yfirlit frétta

Fundir með frambjóðendum

Stjórn íbúasamtaka 3. hverfis hefur nýlega átt fundi með forystumönnum á listum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þar sem farið var yfir þau mál sem að mati stjórnar brenna helst á íbúum hverfisins.

Fyrst var fundað með Samfylkingunni á Kjarvalstöðum og mættu Dagur B. Eggertsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Stefán Benediktsson. Rætt var vítt og breytt um skipulagsmálefni, stokkalausn á Miklubraut, Hlíðarfót, málefni aldraðra og ungmenna og fleira. Fram kom hjá stjórn íbúasamtakanna að þar leggst fólk gegn mislægum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut.

Stjórnin fundaði síðan með fulltrúum af borgarstjórnarlista Sjálfstæðisflokksins og mættu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Jórunn Frímannsdóttir til fundarins.  Rætt var vítt og breytt um málefni hverfisins en mestur tími fór þó í skipulagsmálin og þá annars vegar hvort setja eigi Miklubrautina í stokk og hins vegar mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut og Miklubraut.  Skemmst er frá því að segja að fulltrúar íbúasamtakanna voru ekki að fullu sáttir við svör þeirra sjálfstæðismanna en áherslur þeirra virðast vera á mislæg gatnamót og óljóst með stokkalausnina á Miklubraut.  Fundurinn var engu að síður gagnlegur og komum stjórnin sínum sjónarmiðum á framfæri.

Það er von stjórnarinnar að þessir fundir verði til að styrkja samskiptin við hina pólitísku fulltrúa okkar og að sjónarmið okkar verði höfð að leiðarljósi við stefnumörkun fyrir næsta kjörtímabili. Báðir fundirnir voru haldir að frumkvæði framboðanna..Til baka