Íbúasamtök 3. hverfis
 

Yfirlit frétta

Frá umferðarnefnd Hlíðaskóla

Okkur langar nú í upphafi skólaárs að setja á blað nokkur orð um umferðarmál í hverfinu og gefa í leiðinni dálítið yfirlit um starf nefndarinnar í fyrra.

Við hittumst nokkrum sinnum og auk þess áttu fulltrúar nefndarinnar meðal annars fund með Stefáni Finnsyni hjá Reykjavíkurborg um fyrirhugaða þrengingu Lönguhlíðar. Þá kynntu nefndarmenn sér framkvæmdaáætlanirnar á verkfræðistofunni sem annast verkið. Ráðgert var að framkvæmdir hæfust strax á vormánuðum, en það dróst á langinn. Gera má ráð fyrir að þeim ljúki í lok september. Við viljum hvetja foreldra til að fylgjast vel með börnum sínum sem þurfa að fara eftir Lönguhlíðinni á meðan á framkvæmdum stendur.

Annað sem hvílt hefur þungt á nefndarmönnum er alltof hraður akstur í Hamrahlíðinni og víðar í hverfinu. Á vormánuðum sendum við bréf til borgarfulltrúa þar sem reifaðar eru tillögur að nýjum hraðahindrunum á ýmsum stöðum. Bæði eykur það öryggi gangandi vegfarenda í hverfinu og einnig má vænta þess að slíkar torfærur fæli menn frá gegnumakstri um hverfið sem er gríðarlegur. Þá sendum við lögreglunni einnig fyrirspurn um hraðamælingar í Lönguhlíð og verður það ítrekað nú strax við upphaf skólaárs.

Síðast en ekki síst höfum við mikið rætt umferðaröngþveitið við skólann á morgnana. Skást er ástandið á mánudögum en þá byrja nemendur menntaskólans ekki á sömu mínútu og nemendur Hlíðaskóla eins og alla aðra daga. Auðvitað drægi úr umferðinni ef foreldrar væru tregari til að aka börnunum í skólann; en við vitum líka að margir foreldrar vilja helst ekki að börnin gangi í skólann því að umferðin í kringum hann er svo mikil. Þetta er því vítahringur sem rofnar vísast ekki nema til komi hugarfarsbreyting. Við viljum samt nota tækifærið hér og hvetja alla til að senda börnin gangandi á morgnana – eða ganga með þeim sem er auðvitað best, og spara bensín í leiðinni.

Að lokum hvetjum við foreldra til að skrá sig í umferðarnefndina í haust.

Ásgerður H. Sveinsdóttir, Gestur Hreinsson, Katrín Axelsdóttir, Smári Þórarinsson, Svavar Knútur Kristinsson,Viktor Steinarsson, Þóra Margrét PálsdóttirTil baka