Íbúasamtök 3. hverfis
 

Yfirlit frétta

Hlíðarnar sameinaðar!

Hlíðarnar loksins sameinaðar!

Þann 5. nóvember 2008 var samráðshópi um framkvæmdir við Miklubraut - Kringlumýrarbraut slitið. Í lok fundar var samþykkt niðurstaða sem gengur út á það að lögð verður áhersla á stokk á Miklubraut frá Snorrabraut / Rauðarárstíg austur fyrir gatnamót við Kringlumýrarbraut. Aðgerðum á Kringlumýrarbraut verður frestað en gert er ráð fyrir að hægt verði í framtíðinni að leggja hana undir gatnamótin í jarðgöngum síðar.

Hin risavöxnu þriggja hæða gatnamót sem voru í fyrri tillögu hafa verið slegin af og í staðinn mun Miklabrautin verða lögð undir gatnamótin sem áfram verða í núverandi plani.

Aðal gangnamunnar verða við Snorrabraut og til móts við Kringluna og í niðurstöðu samráðshópsins er sérstaklega kveðið á að gert verði ráð fyrir rólegri hverfisumferð á yfirborðinu þar sem sérstaklega verði tekið tillit til gangandi og hjólandi vegfarenda. Auk þess verði mengunarvarnir í stokkunum sérstaklega skoðaðar með það fyrir augum að mengun og hávaði við gangnamuna verði eins lítil og mögulegt er.

Gert er ráð fyrir að einnar akreinar upp og niðurkeyrslur við stokkinn verði á Miklubraut til móts við gamla Tónabæ en þar var áður gert ráð fyrir stórum 6 akreina gangnamunna.

Í kjölfarið á þessari samþykkt hefst vinna í borgarkerfinu að undirbúningi að hönnun og umhverfismati og þá munu nákvæmar tillögur líta dagsins ljós.

Ef litið er til þess sem fulltrúar Íbúasamtakanna hafa farið fram með, er óhætt að fullyrða að samþykktin í dag mun leiða til þess að líf og lífsgæði íbúa í Hlíðum stórbatna til framtíðar og Hlíðarnar verði loksins sameinaðar. Þetta er mjög mikilvægur áfangi sem náðist á þeirri leið í dag. Til hamingju íbúar í Hlíðum!

Niðurstaðan var samþykkt af fulltrúum allra þeirra sem tóku þátt í samráðinu, utan Íbúasamtaka Háaleitis sem sátu hjá og lögðu fram sér bókun. Niðurstaða samráðshópsins og bókun ÍBH er hér á vefsíðu Íbúasamtaka 3. hverfis. Til baka