Íbúasamtök 3. hverfis
 

Yfirlit frétta

Feikigóður og fjölmennur fundur um Miklatún

Samráðsfundurinn var að mínu mati í einu orði sagt frábær og fór fram úr okkar björtustu vonum, við munum svo sannarlega rýna þær hugmyndir sem fram komu og nýta þær vel,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs. 90 gestir tóku þátt í fundinum.

Samráð borgarbúa um endurnýjun Miklatúns er eitt af grænu skrefnunum í Reykjavík og sagði Þorbjörg Helga að markmið væri að gera garðinn að alhliða útivistar- og menningarsvæði í Reykjavík. „Við viljum að borgarbúum þyki vænt um garðinn og hann sé hluti af vistlegu borgarumhverfi - þar eigi allir ánægjustundir,“ sagði hún.

„Það er ómögulegt að það vanti rennibraut í garðinn,“ sagði Einar Björnsson sjö ára sem sótti samráðsfundinn ásamt móður sinni og bróður. „Ég vil líka fá tjörn og skautasvell,“ bætti hann við og teiknaði hvar tjörnin ætti að vera á kort sem fundargestir fengu og í sama mund gekk hjá Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt, sem hannaði Miklatún 1964, og sagði: „Ég teiknaði einmitt tjörn og skautasvell í garðinn á sínum tíma, þótt enn hafi ekki orðið af því.“

Fundargestir ræddu málin við hvert borð eftir aðferð sem kölluð er heimskaffi og ráðgjafar hjá Alta stjórnuðu. Fjölmargt áhugavert var nefnt til sögunnar og verða þessar hugmyndir notaðar við endurnýjun Miklatúns, meðal hugmynda voru þessar: Markaðstorg, útilistaverk, hlaupaleiðir, ný grillaðstaða, rósagarður, hundaklósett, útikennsla, unglingamiðstöð, gosbrunnur, heilsársstígar, barnakörfubolti og svokölluð „skottsala“ sem merkir að um helgar hittist fólk á bílastæði Kjarvalsstaða og selji hluti upp úr skottum bíla sína.

Spurt var: „Hvernig verður Miklatún sælureitur borgarbúa?“. „Á fundinum komu fram frumlegar og fýsilegar hugmyndir sem verða rýndar strax í næstu viku af starfshópnum um Miklatún,“ sagði Þorbjörg Helga.

Gunnar Hersveinn, upplýsingafulltrúi
Umhverfis-og samgöngusvið ReykjavíkurborgarTil baka