Íbúasamtök 3. hverfis
 

Yfirlit frétta

Hverfahátíð 2011

Hverfahátíð Miðborgar og Hlíða 2011
Hlíðarenda, laugardaginn 27. ágúst kl. 13-17


Hin árlega Hverfahátíð Miðborgar og Hlíða verður í ár haldin á svæði Vals á Hlíðarenda. Í boði verður fjölbreytt dagskrá og má meðal annars nefna atriði frá leik- og grunnskólum í Miðborg og Hlíðum, æfingarsýningu þyrlu Landhelgisgæslunnar, saga séra Friðriks verður sögð í kapellunni á Hlíðarenda, dans- og söngvaatriði á sviði, línudans, klifurveggur, kynning á félaga og tómstundastarfi í hverfunum, auk fjölda annara atriða, bæði á útisviði og í húsakynnum Vals. Það ættu því allir að finna eitthvað sér til skemmtunar á hátíðinni.


Boðið verður upp á fríar strætóferðir fyrir eldri borgara frá öllum fjórum félagsmiðstöðvum aldraðra í hverfunum en almennt eru íbúar hvattir til að ganga eða hjóla á hátíðina, enda um stuttan veg að fara fyrir flesta. Dagskrá hátíðarinnar stendur til kl. 16 en henni lýkur með unglingatónleikum sem standa frá kl. 16-17. Þar koma fram ungar og upprennandi hljómsveitir og tónlistarmenn úr hverfunum.


Hverjir eru bestir í skák í Reykjavík? Á hverfahátíðinni mun fara fram Skákkeppni íþróttafélaganna í umsjón Skákakademíu Reykjavíkur. Hvert félag sendir skáksveit fjögurra skákmeistara og á meðal þeirra verða landsliðsmenn Íslands og þekktir stórmeistarar á borð við Jón L. Árnason og Helga Ólafsson. Fram skartar sterkri sveit Þorfinnssonbræðra og fyrrum unglingalandsliðsmanninum í fótbolta Helga Áss Grétarssyni. Mun Hemmi Gunn taka fram taflkarlanna fyrir Valsmenn? Með hvaða félagi mun Jóhann Hjartarson tefla? Eru KR-ingar jafn góðir í fótbolta og skák?


Á bílastæðunum upp að Hlíðarenda verður síðan risa skottmarkaður á vegum Íbúasamtaka 3. hverfis. Markaðurinn í fyrra var fjölsóttur og nú eru þegar skráðir yfir 60 aðilar á markaðinn og því ljóst að markaðurinn verður glæsilegri og fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.


Hverfahátíðin er samstarfsverkefni Hverfaráða Miðborgar og Hlíða, Vals, Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, frístundamiðstöðvarinnar Kamps og félaga- og tómstundastarfsemi í hverfunum.Til baka