Íbúasamtök 3. hverfis
 

Frístundamiðstöð 3. hverfis er til en hefur ekkert húsnæði?

Frístundamiðstöðin Kampur er ný frístundamiðstöð sem tók til starfa 1. maí 2007.  Kampur hefur umsjón með frístundastarfi fyrir íbúa Miðborgar og Hlíða. Kampur rekur þrjár félagsmiðstöðvar fyrir unglinga í 8.-10. bekk það eru .is í Hlíðaskóla, 105 í Háteigsskóla og 101 í Austurbæjarskóla.  Kampur sér einnig um rekstur þrigggja frístundaheimila fyrir börn í 1.-4.bekk í sömu skólum þ.e.  Hlíðaskjól í Hlíðaskóla, Frístund í Háteigsskóla og Draumaland í Austurbæjarskóla.  Fyrir börn í 5.- 7. bekk er boðið upp á frístundaklúbba yfir vetrartímann.

Siglingaklúbburinn Siglunes og Ylströndin í Nauthólsvík tilheyra frístundamiðstöðinni Kampi. Þar að vænta mikillar endurskipuleggingar og uppbyggingar á næsta ári. 

Til þess að frístundamiðstöðvar blómstri er ljóst að fyrir hendi þarf að vera húsnæði fyrir starfsemina. Íbúasamtök 3. hverfis lögðu til við borgaryfirvöld að koma á starfi á Kjarvalsstöðum og koma þannig á fót fyrstu listrænu frístundamiðstöðinni í borginni en þessi hugmynd hlaut ekki brautargengi hjá Listasafni Reykjavíkur, sem m.a. bar fyrir sig tryggingarmálum. Valur hefur komið að þessu máli líka og ýmsar hugmyndir eru nú í gangi varðandi húsnæði. Eins á fleiri sviðum í borginni er Kampur að þjóna tveimur ólíkum hverfum með ólíkar þarfir og við skipulag starfsins kemur berlega í ljós þær hindranir sem stórfljótin sem skera hverfið eru.

Íbúasamtök 3. hverfis munu áfram ýta á borgaryfirvöld að fá framtíðarlausn í málefnum frístundamiðstöðvar Hlíða sem þjóni íbúum á öllum aldri í hverfinu.