Íbúasamtök 3. hverfis
 

Frjálslyndi flokkurinn

1. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um félagsmálefni unglinga og aldraðra í hverfinu?
Þar sem F-listinn á engan áheyrnarfulltrúa í hverfaráðinu er framboðið ekki vel kunnugt framboði á félagsstarfi unglinga og aldraðra í hverfinu en telur mikilvægt að efla unglingastarfið í samvinnu skólayfirvalda , íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka að ógleymdu íþrótta- og tómstundaráði.  Efla þarf félagsstarf aldraðra og lagðist F-listinn gegn tillögum R-listans á þessu kjörtímabili um niðurskurð á þessu starfi.

2. Hver er afstaða þíns framboðs til hugmynda um að setja Miklubraut í stokk frá Grensásvegi eða frá Kringlumýrarbraut til Snorrabrautar og þannig sameina Hlíðarnar?
F-listinn telur að setja beri Miklubraut í stokk frá Stakkahlíð og niður fyrir gatnamótin við Lönguhlíð þannig að “sameina megi Hlíðarnar.”

3. Hvenær má vænta að fyrirhugaðar framkvæmdir við umferðarmannvirki við Hlíðarfót hefjist? 
Ekki er líklegt að framkvæmdir vegna Hlíðarfótar hefjist á næstunni og þær verða ekki nauðsynlegar eins fljótt ef horfið verður frá því að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni og setja þar niður 20.000 manna byggð eins og allir flokkar nema F-listinn vilja.

4. Myndi framboð þitt styðja hugmyndir um gerð göngubrúar yfir Kringlumýrarbraut til móts við Hamrahlíð yfir á Kringlusvæði – hvenær gætu framkvæmdir hafist ef af yrði?
Núverandi oddviti F-listans hefur lengi barist fyrir fjölgun göngubrúa yfir umferðaræðar og hann flutti tillögu um göngubrú yfir Miklubraut á móts við Framheimilið árið 1999 en hún varð að veruleika vorið 2002.  F-listinn vill að örugg göngutengsl yfir Kringlumýrarbraut á móts við Hamrahlíð verði tryggð sem fyrst og þá með gerð göngubrúar.

5. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um framtíð Miklatúns og hvenær má vænta að hugsanlegar framkvæmdir hefjist?
Framboðið telur að betur þurfi að nýta Miklatún til útivistar en nú er en vill sem minnst ganga á græn svæði í borginni og er ekki hlynnt byggingarframkvæmdum á Miklatúni.

6. Hver er afstaða framboðsins til mislægra gatnamóta á gatnamótum Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar?
F-listinn styður gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og vill að þeim verði flýtt sem kostur er til að auka umferðaröryggi og bæta umferðarflæði eftir Miklubraut.  Mislæg gatnamót auka afköst gatnamóta og koma í veg fyrir að umferð leiti í gegnum íbúðarhverfi.

7. Hvenær má vænta framkvæmda við úrbætur á lóðum Háteigsskóla og Hlíðaskóla?
F-listinn hefur ekki haft tök á því að ráða hvenær úrbætur verða gerðar á lóðum Háteigsskóla og Hlíðaskóla en mun taka tillit til óska íbúa þar um í samræmi við áherslur framboðsins á hverfalýðræði.

8. Hvaða aðgerðir leggur framboðið til við að sporna við loft- og hljóðmengun í 3ja hverfi?
Með því að tryggja mislæg gatnamót á Miklubraut og lagningu hennar í stokk má bæta umhverfið þar sem umferðaflæði verður betra og minna um kyrrstæðar bílaraðir sem menga umhverfið.  Stokkar og hljóðmanir draga úr umferðarhávaða.

9. Mun framboð þitt styðja gerð hljóðmanar þar sem Hlíðahverfi liggur að Kringlumýrarbraut?
Framboðið telur sjálfsagt að draga úr umferðarhávaða við Kringlumýrarbraut með gerð hljóðmana og eftir atvikum trjábeltum milli götunnar og húsaraða.