Íbúasamtök 3. hverfis
 

Samfylkingin

1. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um félagsmálefni unglinga og aldraðra í hverfinu?
Með samvinnu skóla og frístundaheimila við íþróttafélög, tónlistarskóla, listamenn, menningarstofnanir og frjáls félagasamtök í hverju hverfi verði tryggt að samfelldur skóladagur verði fjölbreytt og innihaldsrík viðbót við skólastarfið. Stuðningur við frístundastarf verði aukinn til að stuðla að jöfnum tækifærum og aukinni þátttöku.  Öflugar félagsmiðstöðvar aldraðra eru þegar starfandi  í Lönguhlíð, Bólstaðarhlíð, Hvassaleiti og á Lindargötu og er þjónustumiðstöð hverfisins ætlaður stór hlutur í að þjónusta félagsmiðstöðvarnar við fjölbreytt starf þeirra.

2. Hver er afstaða þíns framboðs til hugmynda um að setja Miklubraut í stokk frá Grensásvegi eða frá Kringlumýrarbraut til Snorrabrautar og þannig sameina Hlíðarnar?
Samfylkingin setur fjölgun samgönguæða til og frá borginni í forgang með gerð Öskjuhlíðarganga og lagningu Sundabrautar alla leið upp á Kjalarnes. Við viljum setja Miklubraut í stokk til að endurnýja tengsl innan Háaleitis- og Hlíðahverfa. Tryggja á öruggar göngu- og hjólaleiðir í öllum hverfum. Breiðgötur komi í stað hraðbrauta.

3. Hvenær má vænta að fyrirhugaðar framkvæmdir við umferðarmannvirki við Hlíðarfót hefjist? 
Það er skilgreint á vegaáætlun. Í henni eru fjármunir fyrir tengingu Hringbrautar við svæði Hótels Loftleiða (Hlíðarfótur að göngum) og í langtímaáætlun á samgönguráðherra að gera tillögu að fjármögnun Öskjuhlíðarganga. Í ljósi þess að ýmsir einkaaðilar hafa sýnt áhuga á að koma að flýtingu stórra vegaframkvæmda er ekki útilokað að Öskjuhlíðargöng væri framkvæmd sem væri vel fallin til að fara í slíkan farveg.

4. Myndi framboð þitt styðja hugmyndir um gerð göngubrúar yfir Kringlumýrarbraut til móts við Hamrahlíð yfir á Kringlusvæði – hvenær gætu framkvæmdir hafist ef af yrði?
Fyrirhugað er að breyta skipulagi Kringlusvæðisins, m.a. til að tengja það betur aðliggjandi hverfum og göngubrú úr Hlíðunum væri ein lausn á því og kemur til skoðunar í því samhengi. Hugmyndin fellur vel að markmiðum Samfylkingarinnar um að Reykjavík verði slysaminnsta höfuðborg Evrópu árið 2012. Þetta er raunhæft því þegar hefur slysum fækkað um helming frá 1998.

5. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um framtíð Miklatúns og hvenær má vænta að hugsanlegar framkvæmdir hefjist?
Samfylkingin vill efla útivist og nýtingu Miklatúns. Í tengslum við verkefnið Hlemmur plús hefur verið farið yfir gamlar og nýjar hugmyndir um uppbyggingu útivistaraðstöðu við Miklatún. Hugmyndir hafa einnig verið settar fram um “Kaffi-róló” á túninu, amk á sumrin. Ekki hefur þó verið tekin afstaða til einstakra hugmynda og þær hafa ekki verið nákvæmlega tímasettar þó ýmislegt smálegt hafi verið gert á undanförnum misserum til að auka fjölbreyttni á svæðinu.

6. Hver er afstaða framboðsins til mislægra gatnamóta á gatnamótum Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar?
Samfylkingin hefur talað gegn mislægum gatnamótum á gatnamótum Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar vegna fyrirsjáanlegra afleiðinga aukningar umferðar á gatnamótunum sem auka myndi á hávaða og mengun í Hlíðunum og í Mýrunum. Engin ásættanleg útfærsla hefur komið fram´a mislægum gatnamótum þrátt fyrir áratuga umræðu. Þvert á móti virðast allar lausnir aðeins flytja vandamálin til á öll næstu gatnamót með tilheyrandi umferðartöppum og gegnumakstri um íbúðahverfi. Samfylkingin vill bæta umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu með því að setja frekar Sundabraut og Öskjuhlíðargöng í forgang. Miklubraut á að setja í stokk.


7. Hvenær má vænta framkvæmda við úrbætur á lóðum Háteigsskóla og Hlíðaskóla?
Búið er að bjóða út framkvæmdir við Hlíðaskóla í sumar fyrir hluta lóðar (ca. 30 millj) og við Háteigsskóla vegna girðinga og öryggismála (ca 3- 4 millj).  Ákveðið er að setja 340 milljónir í endurbætur á skólalóðum á næstu 3 árum og Samfylkingin leggur í stefnuskrá sinni sérstaka áherslu á uppbyggingu skólalóða, opinna svæða og almenningsgarða.
Við viljum fleiri sparkvelli, hverfatorg, leiksvæði, bekki og borð. Í stefnuskránni segir ennfremur: Reykjavík á að verða slysaminnsta höfuðborg Evrópu árið 2012. Þetta er raunhæft því þegar hefur slysum fækkað um helming frá 1998.
 

8. Hvaða aðgerðir leggur framboðið til við að sporna við loft- og hljóðmengun í 3ja hverfi?
Stærsta aðgerðin yrði tvímælalaust að setja Miklubraut í stokk. Í stefnuskrá Samfylkingarinnar segir: Í samstarfi við borgarbúa skal keppt að því að Reykjavík verði meðal hreinustu höfuðborga heims og setja fram aðgerðaáætlun til að sporna við svifryki.

9. Mun framboð þitt styðja gerð hljóðmanar þar sem Hlíðahverfi liggur að Kringlumýrarbraut?
Endurskipulagning Kringlusvæðisins kallar eins og að framan segir á miklar breytingar og bætt hljóðvist íbúa í Stigahlíð hlýtur að vera eitt af forgangsverkefnum þeirra breytinga

Vinsamlegast lýsið í stuttu máli stefnumörkun fyrir hverfið almennt.
Svar: