Íbúasamtök 3. hverfis
 

Sjálfstæðisflokkurinn

1. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um félagsmálefni unglinga og aldraðra í hverfinu?
Reykjavíkurborg á að koma til móts við óskir fjölskyldna um aukna samfellu í skólastarfi og tómstundum, sem ekki aðeins getur aukið þátttöku barna í uppbyggjandi tómstundastarfi heldur einnig tryggt börnum og foreldrum fleiri samverustundir. Í málefnum eldri borgara þarf að gera stórátak í byggingu hjúkrunarheimila og þjónustu og leiguíbúða en fjölmargir eldri borgarar bíða á biðlista eftir þeirri þjónustu.

2. Hver er afstaða þíns framboðs til hugmynda um að setja Miklubraut í stokk frá Grensásvegi eða frá Kringlumýrarbraut til Snorrabrautar og þannig sameina Hlíðarnar?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að setja Miklubraut að hluta í stokk til að auka lífsgæðin í aðliggjandi hverfum. Fyrsti áfangi, sem við horfum til, er sá hluti Miklubrautar sem liggur á milli Stakkahlíðar og Rauðarárstígs.

3. Hvenær má vænta að fyrirhugaðar framkvæmdir við umferðarmannvirki við Hlíðarfót hefjist?
Við viljum að það verðir á árinu 2008 og munum leggja þunga áherslu á framkvæmdina við samgönguyfirvöld og vegagerðina. Þessi framkvæmd er kostuð af Vegagerðinni eins og aðrar framkvæmdir við þjóðvegi í þéttbýli.

4. Myndi framboð þitt styðja hugmyndir um gerð göngubrúar yfir Kringlumýrarbraut til móts við Hamrahlíð yfir á Kringlusvæði – hvenær gætu framkvæmdir hafist ef af yrði?
Já slíka brú ætti að byggja fyrir lok kjörtímabilsins.

5. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um framtíð Miklatúns og hvenær má vænta að hugsanlegar framkvæmdir hefjist?
Sjálfstæðisflokkurinn lét á kjörtímabilinu vinna fyrir sig metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu Miklatúns þar sem allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þar verði leiksvið, skautasvell, boltavellir, tennisvellir, gæsluvöllur og bíótjald svo eitthvað sé nefnt. Tillagan, sem er byggð á hönnun Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts sem upphaflega hannaði Miklatún, er unnin í samvinnu við teiknistofuna Nexus. Í júní 2001 var að tillögu sjálfstæðismanna stofnaður starfshópur til þess að fara yfir garðana í borginni, með það fyrir augum að huga að betri nýtingu þeirra. Vinna hópsins fór vel af stað en á þessu kjörtímabili hefur ekkert gerst.
Sjá meðfylgjandi mynd.
Frekari teikningar er hægt að sjá Betriborg.is:
http://www.betriborg.is/xd/leit/frettir/?ew_0_a_id=151315

6. Hver er afstaða framboðsins til mislægra gatnamóta á gatnamótum Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar?
Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja mislæg gatnamót á þessum gatnamótum til að auka öryggi og flæði umferðar. Mikilvægt er að gatnamótin verði hönnuð þannig að eins mikið tillit verði tekið til umhverfisins eins og kostur er, til dæmis með stokkalausnum.

7. Hvenær má vænta framkvæmda við úrbætur á lóðum Háteigsskóla og Hlíðaskóla?
Viðhald skólalóða víða um borg, eins og gerð göngustíga og hjólreiðastíga, hefur setið á hakanum hjá borgaryfirvöldum undanfarin ár. Úr því þarf að bæta og munum við beita okkur um að svo verði gert.

8. Hvaða aðgerðir leggur framboðið til við að sporna við loft- og hljóðmengun í 3ja hverfi?
Svifryksmengun þarf að minnka með markvissum og tímasettum aðgerðum. Hreinsun gatna, rykbindandi efni, notkun nagladekkja, uppsetning hljóðmana og aðrar aðgerðir verða skoðaðar.

9. Mun framboð þitt styðja gerð hljóðmanar þar sem Hlíðahverfi liggur að Kringlumýrarbraut?
Það er sjálfsagt að láta skoða slíkt ekki síst í ljósi aukinnar umferðar um Kringlumýrarbraut.

Vinsamlegast lýsið í stuttu máli stefnumörkun fyrir hverfið almennt.
Við bendum á stefnumál okkar sem birtast á Betriborg.is, einkum á fjölskyldustefnuna þar sem meðal annars er fjallað um leiðir til að tryggja fjölskyldum fyrsta flokks borgarumhverfi.