Íbúasamtök 3. hverfis
 

Vinstri grænir

1. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um félagsmálefni unglinga og aldraðra í hverfinu?
Margt hefur verið vel gert í frístundastarfi í grunnskólum hverfisins, Hlíðaskóla og Háteigskóla og einnig fer fram öflugt frístundastarf í Tónabæ.  Það hefur verið rætt að efla þyrfti starf á vegum ÍTR í hverfinu og tengja starf frístundarheimila inn í skólanna.  Með uppbyggingu á aðstöðu við Valsheimilið skapast fjölbreytt aðstaða til íþróttaiðkana og jafnframt eru áætlanir um að bæta aðstöðu fyrir boltaíþróttir í tengslum við endurbætur á skólalóðum. Leggja þarf áherslu á að hraða þeim endurbótum og m.a. að ganga frá gervigrasvöllum fyrir boltaíþróttir. Jafnframt vill VG fylgja eftir athyglisverðri umræðu um frístundastarf tengt listsköpun t.d. í tengslum við uppbyggingu starfsemi á Miklatúni og jafnvel í tengslum við starfsemi listasafnsins á Kjarvalsstöðum.  Áherslu þarf að leggja á bætta þjónustu við aldraða, m.a. með eflingu frístundastarfs og félagslegrar þátttöku eldri borgara. Þessi starfsemi þarf að skipuleggjast með aðkomu þjónustumiðstöðva hverfisins en þó einkum í samvinnu við þá sem málið snýst um, í þessu tilfelli eldri borgara hverfisins.


2. Hver er afstaða þíns framboðs til hugmynda um að setja Miklubraut í stokk frá Grensásvegi eða frá Kringlumýrarbraut til Snorrabrautar og þannig sameina Hlíðarnar?
VG styður þá áætlun sem m.a. kemur fram í gildandi aðalskipulagi borgarinnar að Miklabraut sé í stokk, en þannig er m.a. stuðlað að bættu umhverfi og betri samgöngum innan hverfisins.  Í skipulagstillögum VG er einmitt gert ráð fyrir Miklubraut í stokk frá Kringlumýrarbraut að Snorrabraut.

3. Hvenær má vænta að fyrirhugaðar framkvæmdir við umferðarmannvirki við Hlíðarfót hefjist? 
Mikilvægt er að fara rösklega og rækilega yfir áætlanir um umferðarmannvirki og skipulag þess umhverfis sem við viljum skapa í borginni.  Umferðarmannvirki við Hlíðarfót eru tengd gríðarlegum áætlunum um umferðarmenningu sem taka þarf til gagngers endurmats með aukinni áherslu á almenningssamgöngur og bættar aðstæður gangandi og hjólandi vegfarenda.  Hlíðarfótur í göngum undir Öskjuhlíð er til þess fallinn að létta álagi af gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og því þarf að koma þeirri framkvæmd inn á vegáætlun ríkisins sem fyrst.  Fái VG til þess afl í komandi kosningum má vænta afgerandi breytinga í skipulagi umferðar og umferðarmannvirkja með hagsmuni íbúa, umhverfis og umferðaröryggi að leiðarljósi.

4. Myndi framboð þitt styðja hugmyndir um gerð göngubrúar yfir Kringlumýrarbraut til móts við Hamrahlíð yfir á Kringlusvæði – hvenær gætu framkvæmdir hafist ef af yrði?
Mikil umferð gangandi vegfarenda er á þessum slóðum yfir Kringlumýrarbraut, m.a. vegna framhaldsskóla báðu megin brautarinnar og einnig vegna þjónustu sem fólk sækir s.s. í Kringluna og í Suðurver.  VG styður gerð göngubrúar á þessum stað og telur rétt að hraða hönnun þeirra í sambandi við skipulag umferðar á þessum fjölfarna stað.

5. Hvaða hugmyndir hefur framboðið um framtíð Miklatúns og hvenær má vænta að hugsanlegar framkvæmdir hefjist?
Nýting á útivistarmöguleikum Miklatúns hefur vaxið en mjög margir möguleikar liggja í frekari uppbyggingu fyrir útivist og frístundarstarf s.s. á Miklatúni, í Öskjuhlíð og á fleirri grænum svæðum í borginni. Íbúasamtök hverfisins hafa bent á marga góða möguleika í notkun þessara svæða og er það vilji VG að eiga samráð við íbúasamtök hverfisins um uppbyggingu á aðstöðu á þessum svæðum.  Hraða þarf frekari frágangi  á stígum á Miklatúni efla aðstöðu fyrir börn og unglinga með boltavöllum og endurbættum leikvelli, en jafnframt er rétt að halda við kyrrð og friðsæld á svæðum sem skapast hafa í skjóli trjágróðurs sem þarna hefur vaxið.  Huga þarf vel að aðgengi að Miklatúni en til að komast þangað þurfa íbúar Hlíðahverfis í dag að fara yfir fjölfarna umferðargötu.


6. Hver er afstaða framboðsins til mislægra gatnamóta á gatnamótum Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar?
VG telur að mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar sé ekki sú leið sem fara á enda kallar slík aðgerð á keðjuverkun stórbrotinna umferðarmannvirkja við önnur gatnamót þessara umferðaræða.  Við teljum ekki að slík margra milljarða króna framkvæmd muni leiða til betra umhverfis, hún mun þvert á móti leiða til meiri mengunar, aukins umferðarhraða og í alla staði óaðlaðandi umhverfis.
Sú aðgerð sem gripið var til að breikka gatnamótin og fjölga akreinum gaf að vissu leyti svigrúm til að fara yfir málefni umferðar í borginni og til að endurhugsa umferð, samgöngur og það umhverfi sem íbúar vilja sjá þróast í borginni sinni. Bæta þarf umferðarleiðir og úrræði sem létta umferð einkabíla af Miklubraut og Kringlumýrarbraut.

7. Hvenær má vænta framkvæmda við úrbætur á lóðum Háteigsskóla og Hlíðaskóla?
Framkvæmdir við skólalóðir njóta athygli í borgarstjórn og hefur fjármagni þegar verið veitt til framkvæmda við bæði Hlíðaskóla og Háteigsskóla.  Það er stefna VG að auka öryggi í umferð ekki síst í nágrenni við skóla og annar staðar þar sem börn eru á ferð.  Aðstaða á skólalóðum þarf að batna og vinna þarf að fjölbreyttum leiksvæðum, s.s. með fleiri boltavöllum og bættum leiksvæðum.  Framkvæmdir eru fyrirhugaðar við lóð Hlíðaskóla sumarið 2006 og ljóst er að ýmis mál varðandi lóð Háteigsskóla þola ekki bið.  VG vill stuðla að stórbættri borg fyrir börn.  Þá leggjum við áherslu að skipulag skólalóða sé unnið í náinni samvinnu borgar, starfsmanna, nemenda og foreldra.

8. Hvaða aðgerðir leggur framboðið til við að sporna við loft- og hljóðmengun í 3ja hverfi?
Ljóst er að það verður að vera markmið borgarinnar að draga stórlega úr vexti bílaumferð í borginni, samhliða eflingu almenningssamgangna, og bættri aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi umferð.  Að setja Miklubraut í stokk er liður í að draga úr loft- og hljóðmengun í íbúðarhverfum.  Endurhönnun umferðarleiða um borgina þarf að draga gegnumstreymis umferðina burtu frá íbúasvæðum.  Í raun er ástand í hverfinu óviðundandi þegar horft er til þeirrar gríðarlegu umferðar bifreiða sem streymir um megnistofnæðar borgarinnar sem skera íbúabyggðina í hluta.

9. Mun framboð þitt styðja gerð hljóðmanar þar sem Hlíðahverfi liggur að Kringlumýrarbraut?
Til að bjarga aðkallandi vanda sem skapast hefur þarf að sinna ábendingum og aðfinnslum íbúa þar sem umferð veldur heilsuspillandi ástandi.  VG vill stuðla að bættu umhverfi og finna fullnægjandi lausnir á þeim vandamálum sem umferð skapar.  Hljóðmanir hafa bæði kosti og galla en mikilvægt er að slíkar framkvæmdir séu unnar í nánu samstarfi við íbúa og samtök þeirra, hverfisráð og fleiri aðila.

Vinsamlegast lýsið í stuttu máli stefnumörkun fyrir hverfið almennt.

Hér er um að ræða gróið og vinsælt íbúahverfi þar sem íbúar eru í vaxandi mæli að koma fram með ábendingar og kröfur um bætt umhverfi og breytingar á þeim aðstæðum sem skapast hafa með vaxandi bílaumferð um meginstofnæaðar sem skera hverfið langs og þvers.  Á komandi árum þarf að endurhanna umferð, fólks- og vöruflutninga þannig að aðstæður fyrir mannlíf í hverfinu verði betra.

Kjörorð framboðs VG er betri borg fyrir börn, betri borg fyrir alla, aldraða, fatlaða, já alla.
Húseignir við ýmsar götur í hverfinu eru byggðar um og upp úr miðri 20. öld og er komin tíma á verulegar umbætur og viðhald bæði fyrir eignir einstaklinga og einnig fyrir mannvirki sem eru í opinberri umsýslu (götur, lagnakerfi og þjónustuhúsnæði). 
Stuðla þarf að félagslegri eflingu í hverfinu, auknum möguleikum fyrir íbúa til að hafa áhrif á þróun og stefnumörkun og aðkomu að ákvörðunum yfirvalda um málefni sem snúa að hverfinu.
VG fagnar stofnun íbúasamtaka í hverfinu á liðnum vetri og lýsir vilja til að eiga gott og mikið samstarf við íbúa hverfisins.