Íbúasamtök 3. hverfis
 

Hverfislögregla

Guðrún Jack er hverfislögreglumaður Hlíðahvefis. Guðrún er tengiliður íbúa við lögregluna og kemur m.a. að verkefni um nágrannavörslu sem er á tilraunastigi. Hún hefur umsjón með forvarnarstarfi og heldur utan um upplýsingar sem snúa að 3. hverfi, ásamt því að sinna fræðslumálum og málefnum ungs fólks í hverfinu.

Ólíkt því sem þekkist úr t.d. Breiðholti og Grafarvogi, hefur hverfislögreglan í Miðborg- og Hlíðum enga sérstaka hverfisstöð og hefur Guðrún aðsetur á Lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Guðrún tekur á móti ábendingum varðandi hverfið sem snúa að lögreglunni. Þó er rétt að benda á að best er að senda málefni sem varða umferðarmál beint á Umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík.

Guðrún er með netfang gudrun.jack@lrh.is og síminn hjá henni er 843-1861 þurfi íbúar að ná tali af henni eða koma á hana ábendinum.

Nánari upplýsingar má fá á vef hverfislögreglunnar.

 

Nánar um hverfislögregluna:

Hverfislögreglumenn

Hlutverk hverfislögreglumanna er að vera í góðum tengslum við fólkið í hverfum sínu. Þeir funda reglulega með fulltrúum skólanna, þjónustumiðstöðva, barnaverndar og félagsmiðstöðva. Þeir eru einnig samstarfi við hverfasamtök, þar sem þau eru fyrir hendi og önnur félög og stofnanir í hverfinu. Einnig eru þeir í sambandi við foreldrafélög og foreldrarölt. Á þennan hátt eru þeir í sambandi við lykilaðila hver á sínu svæði.  Þegar upp koma mál í hverfunum  vegna vímuefnaneyslu, s.s. landadrykkja, sniff, kannabisneyslu eða eineltis, skemmdarverka eða slíks koma hverfislögreglumenn oft þar að. Hverfislögreglumenn fara í skólana til að ræða við og fræða börn og foreldra um ýmis málefni og  til að leysa vandamál sem upp koma þar. Þegar fíkniefnafræðslan “Hættu áður en þú byrjar” fer fram í skólunum eru það hverfislögreglumenn, hver í sínu hverfi, sem halda utan um þátt lögreglunnar í þeirri fræðslu.

Hverfislögreglumenn rannsaka mál ósakhæfra barna í sínum hverfum en þessi mál þarf að rannsaka og upplýsa eins og önnur mál þó svo að börnunum verði ekki refsað. Þá geta hverfislögreglumenn oft veitt rannsóknardeildunum aðstoð vegna staðarþekkingar sinnar og er hægt að nefna mörg dæmi um alvarleg mál sem þannig hafa verið upplýst. Þá hafa þeir náið samstarf við Barnavernd ekki síst í sambandi við börn með vímuefnavanda enda mikið um að foreldrar leiti til hverfislögreglumanna eftir upplýsingum og ýmiskonar aðstoð.

Hverfislögreglumenn fara reglulega í eftirlit um hverfi sitt til að fylgjast með útivistartíma og  hvort  hópasöfnun eigi sér stað og einnig almennu ástandi í hverfinu. Þeir fylgjast einnig vel með tíðni afbrota í hverfum sínum og hvað er helst til úrbóta. Þegar upp koma vandamál vegna óæskilegra hópamyndana eru það gjarnan hverfislögreglumennirnir sem best eru í stakk búnir til þess að greina og leysa slík vandamál. Hverfislögreglumenn vinna yfirleitt einkennisklæddir og aka á merktum lögreglubifreiðum en þannig eru þeir vel sýnilegir enda er fólk ánægt með að sjá lögregluna á ferðinni.