Íbúasamtök 3. hverfis
 

Upplýsingar um svifryk og mengun

Það eru þrír megin þættir mengunar í Reykjavík sem ógna heilsu íbúa í 3. hverfi. Í fyrsta lagi er svifrykið, í öðru lagi er köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og þriðji skaðvaldurinn er hávaði. Meirihluti íbúa í 3. hverfi býr innan hættulegasta 200 m áhrifasvæðis af völdum NO2, eins og Þórarinn Gíslason læknir sagði frá í viðtali við Morgunblaðið þann 30.01.2007. Mælingar hafa sýnt fram á að áhrifasvæði svifryks sé sambærilegt við áhrifasvæði NO2. Kortið hér til hliðar sýnir glögglega þetta áhrifasvæði í 3. hverfi og þá nöturlegu staðreynd að 5 af 7 leiksskólum og allir barnaskólar hverfisins eru innan þess. Um áhrif svifryks á heilsufar má lesa í þessari glærukynningu sem Sigurður Þór Sigurðarson flutti á fundi Íbúasamtaka 3. hverfis þann 5. mars 2007.

Svifryk

Afleiðingar svifryks á heilsu er margvíslegar og margar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim. Það er óhætt að fullyrða að á undanförnum árum hefur verið leitt í ljós að svifryk er mun meiri skaðvaldur en áður hefur verið talið. Sem dæmi um það má nefna að finnsk rannsókn leiðir í ljós að svifryk eykur hættu á hjartaáfalli um 7,4%. Í Landskrona í Svíþjóð búa um 40.000 manns og þar eru 12 dauðsföll árlega rakin beint til svifryksmengunar. Samkvæmt niðurstöðum WHO látast árlega þrefalt fleiri að völdum mengunar umferðar en af völdum slysa í umferðinni.

Í Reykjavík hefur uppruni svifryks verið rannsakaður. 55% svifryksins eru malbiksagnir sem að mestu leiti eru til komnar vegna uppspæningar malbiks af völdum nagladekkja. Í Reykjavík hefur notkun nagladekkja minnkað eitthvað á undanförnum árum, en er samt mjög mikil, sérstaklega þegar haft er í huga að það eru einungis örfáir dagar á ári sem þau koma að einhverjum raunverulegum notum.

Árið 2006 fór svifryk 29 sinnum yfir heilsufarsmörk en það árið var talið að dagarnir sem mögulega réttlættu notkun nagladekkja væru 3. Þess má geta að skv. reglugerð var þetta nákvæmlega jafn oft og heimilt var að fara yfir heilsufarsmörk árið 2006. Árið 2007 er þessi tala 23 og mun minnka niður í 10 skipti árið 2010. Það er því ljóst að verulega þarf að taka á til að ná þessum árangri. Árið 2007 fór sólahringsgildi svifryks 17 sinnum yfir heilsufarsmörk skv. mælistöð Umhverfisstofu við Grensásveg.

Auk þess að sannarlega vera helsti uppruni svifryks, auka nagladekk hávaða og auka slit á götum. Það er því margt sem mælir með því að dregið verði sem allra mest úr notkun nagladekkja, eða þau hreinlega bönnuð eins og á við um flest Evrópulönd. Í dag eru í boði valkostir í ónegldum vetrardekkjum sem eru að minnsta kosti jafn öruggir, ef ekki öruggari en naglar í dekkjum. Nýjustu gerðir loftbóludekkja hafa komið mjög vel út í tilraunum og við margar aðstæður eru þau hreinlega öruggari en nagladekk.

Heimild: Morgunblaðið - 12. apríl 2007