Íbúasamtök 3. hverfis
 

Framsóknarflokkurinn

Svör Framsóknarflokksins við spurningum frá Íbúasamtökum 3.hverfis í Reykjavík

1. Hvaða tillögur hefur framboðið til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og á hvaða tímabili?
2. Hvaða áætlanir hefur framboðið til að sporna við mengun af völdum bílaumferðar í höfðuðborginni, jafnt til skemmri og lengri tíma?

Í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins segir að flokkurinn vilji gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti með afnámi gjaldtöku þar
sem það á við og útvíkkun þjónustusvæða. Flokkurinn vill að ríkið komi að því að efla
almenningssamgöngur og að sveitarfélögin tryggi að almenningssamgöngur verði raunhæfur kostur fyrir alla með hækkuðu þjónustustigi.Kosningastefnuskráin tekur til þeirra stefnumála sem flokkurinn vill koma í framkvæmd á næsta kjörtímabili.

Í kosningastefnuskrá segir ennfremur að Framsóknarflokkurinn vilji vinna markvisst að því að hvetja til notkunar á farartækjum sem nýta innlenda og umhverfi svæna orkugjafa, m.a. með skattaívilnunum. Þar sem spurt er um áætlanir flokksins til að sporna við mengun af völdum bílaumferðar til skemmri og lengri tíma skal þess einnig getið að í stefnuskránni er kveðið á um að stórauka skuli bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu.  Ennfremur að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Með ályktun á síðasta flokksþingi voru þau markmið sett að draga skuli úr útblástursmengun frá bílaflotanum um 50% á 10 árum og að vinna skuli markvisst að því að skipta yfir í endurnýjanlegt eða vistvænt eldsneyti bæði
í samgöngum og við fiskveiðar, s.s. metan, lífdísel og vetni.

Loks má nefna að Framsóknarflokkurinn á aðild að þeim meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur sem nýlega kynnti verkáætlun í umhverfismálum sem hefur það m.a. að markmiði að sporna við mengun frá bílaumferð og efla almenningssamgöngur.

3. Styður framboðið fyrirhuguð mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eins og þau liggja fyrir á núverandi hönnunarstigi og Vegagerðin kynnti þingmönnum Reykjavíkur nýlega? Ef svo er ekki, þá hvers vegna?
4. Styður framboðið yfirbyggða stokka- og/eða gangnalausnir stofnbrauta í gegnum 3. hverfi og ef svo er, hvenær sér framboðið slíkar lausnir komnar í notkun?
5. Hvenær telur framboðið að Öskjuhlíðargöng verði orðin að veruleika?

Framsóknarflokkurinn telur það meðal forgangsmála að efla samgöngur innan borgarmarkanna á þjóðvegum í þéttbýli, svo sem Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Samgönguáætlun, sem samþykkt var á síðasta þingi, gerir ráð fyrir að umtalsverðum fjármunum verði varið til úrbóta á þjóðvegum í borginni. Í sérstakri höfuðborgarstefnu, sem flokkurinn samþykkti árið 2005, er ályktað um að mislæg gatnamót skuli rísa við Kringlumýrarbraut og Miklubraut og verði þess gætt að umfang mannvirkisins og sjónræn áhrif á nánasta umhverfi verði sem minnst. Jafnframt sé nauðsynlegt að skoða hið fyrsta lagningu vegar um Hlíðarfót (Öskjuhlíðargöng) og áhrif þeirrar framkvæmdar á umferðarmynstur innan höfuðborgarinnar. Flokkurinn hefur ekki – í aðdraganda þeirra þingkosninga sem nú fara í hönd - tekið afstöðu til einstakra tæknilegra úrlausna í þessum efnum.

6. Hverjar eru hugmyndir framboðsins um íbúalýðræði og styður framboðið aukið íbúalýðræði? Ef svo er, á hvern hátt mun framboðið beita sér fyrir að það þróist á næsta kjörtímabili? Ef ekki, þá hvers vegna?
7. Að hve miklu leyti telur framboðið að íbúakosningar skuli vera bindandi fyrir stjórnvöld?
8. Hvað ætlar framboðið að gera til að framfylgja niðurstöðu íbúakosningar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri sem fram fór í mars 2001?

Framsóknarflokkurinn átti aðild að þeim meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur sem gekkst fyrir þeim kosningum um framtíð flugvallarins sem vísað er til. Samkvæmt gildandi sveitarstjórnarlögum er niðurstaða þeirrar kosningar ekki bindandi að lögum eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002. Breytingar á viðkomandi ákvæði sveitarstjórnarlaganna hafa ekki verið ræddar á vettvangi flokksins.
Spurningar um íbúalýðræði og þjóðaratkvæði voru til umræðu í nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra skipaði haustið 2004, og lauk störfum í vor án þess að komist væri að niðurstöðu. Framsóknarflokkurinn styður að við endurskoðun stjórnarskrárinnar verði hugað að því að stjórnarskráin kveði á um með hvaða hætti hægt verði að bera ýmis málefni, sem varða almannahag, undir atkvæði kosningabærra manna.
Í sveitarstjórnarkosningum sl. vor bar flokkurinn fram þá stefnu að flytja skuli flugvöllinn á Löngusker í Skerjafirði. Af hálfu Framsóknarflokksins er lögð áhersla á að sætta þau sjónarmið að Reykvíkingar geti nýtt verðmætt byggingarland í Vatnsmýrinni í þágu þróunar borgarinnar en um leið að höfuðborgin þjóni  landsbyggðinni með því að tryggja rekstur innanlandsflugvallar í grennd við miðstöð stjórnsýslunnar og heilbrigðisþjónustunnar í landinu.