Íbúasamtök 3. hverfis
 

Frjálslyndi flokkurinn

Svör Frjálslynda flokksins við spurningum frá Íbúasamtökum 3.hverfis í Reykjavík

1. Hvaða tillögur hefur framboðið til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og á hvaða tímabili?

Austur-vestur öxullinn er löngu sprunginn og það verður að vera greið leið ofan úr Grafarvogi og vestast í vesturbæinn. Tillögur eru um að það verði a.m.k. þríbreið akbraut í báðar áttir og nú þegar gerð mislæg gatnamót á gatnamótunum við Kringlumýrarbraut og komið með hugmyndir að lausn á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar. Þá er suður-vesturöxullinn líka sprunginn og mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut laga mikið þar. Frjálslyndi flokkurinn hefur á stefnuskrá sinni að forgangsraða fyrir samgöngur á næsta kjörtímabili og þar er m.a. forgangsatriði að leiðir að og frá Reykjavík verði greiðar m.a. með því að Sundabraut verði gerð þegar í stað.

2. Hvaða áætlanir hefur framboðið til að sporna við mengun af völdum bílaumferðar í höfðuðborginni, jafnt til skemmri og lengri tíma?

Ekki hefur verið sérstaklega fjallað um það að öðru leyti en sem varðar almennar aðgerðir gegn mengun. Persónulega tel ég mikilvægt að lækka gjöld á litlum eyðslugrönnum bifreiðum og stuðla þannig að því að borgararnir kaupi slíka bíla.

3. Styður framboðið fyrirhuguð mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eins og þau liggja fyrir á núverandi hönnunarstigi og Vegagerðin kynnti þingmönnum Reykjavíkur nýlega? Ef svo er ekki, þá hvers vegna?

Já ég styð það

4. Styður framboðið yfirbyggða stokka- og/eða gangnalausnir stofnbrauta í gegnum 3. hverfi og ef svo er, hvenær sér framboðið slíkar lausnir komnar í notkun?

Þessi spurning er of víðtæk til að ég treysti mér til að svara henni fullnægjandi núna. En persónulega hef ég barist fyrir að umferðarmálin og hönnun umferðarmannvirkja verði forgangsmál.

5. Hvenær telur framboðið að Öskjuhlíðargöng verði orðin að veruleika? 

Það ætti að vera raunhæft að tala um árið 2009 miðað við forgangsröðun fyrir samgöngumál.

6. Hverjar eru hugmyndir framboðsins um íbúalýðræði og styður framboðið aukið íbúalýðræði? Ef svo er, á hvern hátt mun framboðið beita sér fyrir að það þróist á næsta kjörtímabili? Ef ekki, þá hvers vegna?

Frjálslyndi flokkurinn vill aukið lýðræði,bæði þjóðaratkvæðagreiðslur og kosningar um málefni sem varða sveitarfélög. Ég hef sett fram hugmynd um að alltaf skuli kjósa um öll mál krefjist 10% kjósenda þess.

7. Að hve miklu leyti telur framboðið að íbúakosningar skuli vera bindandi fyrir stjórnvöld?

Algjörlega bindandi.

8. Hvað ætlar framboðið að gera til að framfylgja niðurstöðu íbúakosningar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri sem fram fór í mars 2001?

Það var orðað sem skoðanakönnun. Frjálslyndi flokkurinn hefur þá stefnu að flugvöllurinn skuli vera áfram í Vatnsmýrinni.  Hér er um málefni sem varðar alla Íslendinga.

Kveðja,

Jón Magnússon hrl.