Íbúasamtök 3. hverfis
 

Íslandshreyfingin

Svör Íslandshreyfingarinnar við spurningum frá Íbúasamtökum 3.hverfis í Reykjavík

1. Hvaða tillögur hefur framboðið til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og á hvaða tímabili?

Íslandshreyfingin – lifandi land telur að born, námsmenn og eldri borgarar eigi að fá frítt í strætó þegar á næsta kjörtímabili.


2. Hvaða áætlanir hefur framboðið til að sporna við mengun af völdum bílaumferðar í höfðuðborginni, jafnt til skemmri og lengri tíma?

Íslandshreyfingin – lifandi land leggur til breytingar á bifreiðagjöldum þannig að gjöld verði miðuð við það hversu umhverfisvænar bifreiðar eru. Einnig  setja á útblástursgjöld og einnig mætti vera samband milli lengdar bifreiðar og gjaldtöku. Einnig viljum við að stofnbrautir séu settar í göng og stokka til að minnka hávaða og mengun.
Íslandshreyfingin telur einnig rétt að athuga hvort ekki væri rétt að skipta út nokkrum strætisvögnum fyrir minni vagna, s.k. kálfa, sem væru notaðir á tímum þegar álag er minna.


3. Styður framboðið fyrirhuguð mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eins og þau liggja fyrir á núverandi hönnunarstigi og Vegagerðin kynnti þingmönnum Reykjavíkur nýlega? Ef svo er ekki, þá hvers vegna?

Íslandshreyfingin – lifandi land styður fyrirhuguð mislæg gatnamót vegna þess að þau eru umhverfisvænni en gert var ráð fyrir í fyrri tillögum, enda að hluta til í stokk.

4. Styður framboðið yfirbyggða stokka- og/eða gangnalausnir stofnbrauta í gegnum 3. hverfi og ef svo er, hvenær sér framboðið slíkar lausnir komnar í notkun?

Íslandshreyfingin – lifandi land vill bæta samgöngur og auka lífsgæði íbúa á höfuðborgarsvæðinu með því að setja stofnbrautir í göng og stokka. Hreyfingin styður umhverfisvænar lausnir eins og t.d. þá sem stendur til að byggja á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar.


5. Hvenær telur framboðið að Öskjuhlíðargöng verði orðin að veruleika?

Raunhæft mat er að gera ráð fyrir framkvæmdum við Öskjuhlíðargöng þegar lokið hefur verið við að setja Miklubraut og Kringlumýrarbraut í stokka út frá neðanjarðar mislægum gatnamótum,  sem er algert forgangsmál fyrir íbúa 3ja hverfis, og eftir að Sundabraut er komin alla leið.
Til að Öskjuhlíðargöng skili tilætluðum árangri, að beina umferð frá íbúahverfum, verða þau að halda áfram undir Kópavogshálsinn og tengjast þannig ekki bara Reykjavíkurvegi heldur einnig Reykjanesbraut. Ekki er gert ráð fyrir slíku í núverandi samgönguáætlun.


6. Hverjar eru hugmyndir framboðsins um íbúalýðræði og styður framboðið aukið íbúalýðræði? Ef svo er, á hvern hátt mun framboðið beita sér fyrir að það þróist á næsta kjörtímabili? Ef ekki, þá hvers vegna?

Íslandshreyfingin – lifandi land telur að íbúar sem og aðrir hagsmunaaðilar eigi að koma mun fyrr inn í stefnumótun og ákvarðanatökuferli en nú er. Aukin þátttaka íbúa í stjórnun sveitarfélaga er forgangsmál. Íbúar búa yfir gríðarlegri staðþekkingu sem ber skilyrðislaust að nýta.
Íslandshreyfingin – lifandi land mun leggja áherslu á að tryggja aðkomu íbúa miklu fyrr í skipulagsmálum með því að lögbinda þátttökuferlið alla leið. Þá leggur Íslandshreyfingin áherslu á að hægt sé að vísa einstökum málum til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. ef 20% þjóðarinnar óskar þess eða þriðjungur þingmanna.


7. Að hve miklu leyti telur framboðið að íbúakosningar skuli vera bindandi fyrir stjórnvöld?

Íslandshreyfingin – lifandi land telur mikilvægt að ákveða hverju sinni fyrirfram hvort niðurstaða íbúakosningar sé bindandi, hvort heldur er með einföldum eða auknum meirihluta. Það er ekkert því til fyrirstöðu að gerðar séu formlegar kannanir/kosningar um afstöðu til einstakra mála og leiða til úrlausna til þess að forgangsraða valkostum fyrir frekari úrvinnslu.


8. Hvað ætlar framboðið að gera til að framfylgja niðurstöðu íbúakosningar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri sem fram fór í mars 2001?

Íslandshreyfingin – lifandi land telur að innanlandsflugvöllur eigi að vera áfram í Reykjavík, annað hvort í Vatnsmýrinni, sem við viljum helst, eða á Hólmsheiði, ef úttekt á veðurathugunum þar gefur jákvæðar niðurstöður.  Einstaka sveitarstjórnir eða hverfi eiga ekki að geta kosið um mál sem varða alla þjóðina jafn miklu og staðsetning flugvallarins, sem varðar höfuðborgina og alla landsbyggðina líka.