Íbúasamtök 3. hverfis
 

Sjálfstæðisflokkurinn

Svör Sjálfstæðisflokksins við spurningum frá Íbúasamtökum 3.hverfis í Reykjavík

1. Hvaða tillögur hefur framboðið til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og á hvaða tímabili?

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur nýlega kynnt Græn skref í Reykjavík. Hluti af þeim er að reykvískir námsmenn fá ókeypis í strætó næsta vetur. Markmiðið með þessu er að kynna framhalds- og háskólanemum þann góða kost sem strætó er, í þeiri von að fleiri fari að nota hann að staðaldri.

Samhliða þessum aðgerðum verður forgangsakgreinum fjölgað, þjónustan bætt og samkeppnisstaða strætó jöfnuð einsog og kemur skýrt fram í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins.

2. Hvaða áætlanir hefur framboðið til að sporna við mengun af völdum bílaumferðar í höfðuðborginni, jafnt til skemmri og lengri tíma?

Nýlega kynnti ríkisstjórnin stefnumörkun í loftslagsmálum. Þar kemur fram að minnka á losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% til ársins 2050. Stærstu tækifærin þar liggja í samgöngum. Fyrirhugaðar eru breytingar á tollum og gjöldum á umhverfisvænni bílum, til að ýta undir notkun þeirra. Aukinn stuðningur við almenningssamgöngur dregur einnig úr mengun, og sömuleiðis sú stefna Sjálfstæðisflokksins að göngu- og hjólreiðastígar borgarinnar verði gerðir hluti af þjóðvegakerfinu með aukinni þjónustu og viðhaldi. Allt þetta ýtir undir aukna fjölbreytni á ferðamátum og minni bílaumferðar.


3. Styður framboðið fyrirhuguð mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eins og þau liggja fyrir á núverandi hönnunarstigi og Vegagerðin kynnti þingmönnum Reykjavíkur nýlega? Ef svo er ekki, þá hvers vegna?

Sjálfstæðisflokkurinn styður umhverfislausn á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, sem felur í sér að bæði Miklabrautin og Kringlumýrarbrautin fara í stokk þar sem göturnar mætast. Stokkarnir munu ná talsvert langt í suðurátt á Kringlumýrarbraut og vesturátt á Miklubraut.
 
Þessi lausn mun draga úr svifryksmengun og hávaðamengun, bæta aðgengi gangandi og hjólandi á svæðinu og bæta umferðaröryggi á svæðinu verulega. Bæði fyrir þá sem eru akandi, og fyrir hina sem þurfa að komast yfir göturnar. Öll þessi atriði eru í forgangi við hönnun gatnamótanna. Ástandið á gatnamótunum einsog það er í dag er ólíðandi hvað varðar mengun, hávaða og umferðaröryggi.

4. Styður framboðið yfirbyggða stokka- og/eða gangnalausnir stofnbrauta í gegnum 3. hverfi og ef svo er, hvenær sér framboðið slíkar lausnir komnar í notkun?

Sjálfstæðisflokkurinn vill að umhverfislausnin á Miklubraut og Kringlumýrarbraut feli í sér úrbætur allt vestur að Rauðarárstíg. Á kaflanum frá Kringlumýrarbraut og vestur undir Rauðarárstíg verður Miklabrautin í stokki, ýmist opnum eða lokuðum. Á Kringlumýrarbraut mun stokkurinn teygja sig í suður frá Miklubraut og ná að minnsta kosti suður fyrir Listabraut.

Þessi lausn mun bæta hljóðvist á svæðinu, auka umferðaröryggi og draga úr mengun.


5. Hvenær telur framboðið að Öskjuhlíðargöng verði orðin að veruleika?

Öskjuhlíðargöng voru á 12 ára samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi í vetur af hálfu samgönguráðherra. Gert var ráð fyrir þeim á síðasta tímabili þeirrar áætlunar. Ekki varð hins vegar af því að áætlunin fengist samþykkt á þingi, þar sem stjórnarandstaðan setti sig upp á móti henni og sátt náðist ekki á síðustu dögum þingsins.


6. Hverjar eru hugmyndir framboðsins um íbúalýðræði og styður framboðið aukið íbúalýðræði? Ef svo er, á hvern hátt mun framboðið beita sér fyrir að það þróist á næsta kjörtímabili? Ef ekki, þá hvers vegna?

Sjálfstæðisflokkurinn telur að beinar atkvæðagreiðslur eigi við í mikilvægum grundvallarmálum sem varða þjóðina alla. Augljóst er að hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er slíkt mál.


7. Að hve miklu leyti telur framboðið að íbúakosningar skuli vera bindandi fyrir stjórnvöld?

Niðurstöður íbúakosninga eru ýmist bindandi eða ráðgefandi fyrir þau stjórnvöld sem að þeim standa og fer það eftir þeim reglum sem gilda hverju sinni. Ef reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur verða útfærðar nánar hér á landi væri eitt þeirra atriða sem skoða þyrfti hvort lágmarksþátttöku yrði krafist til þess að niðurstöðurnar séu bindandi


8. Hvað ætlar framboðið að gera til að framfylgja niðurstöðu íbúakosningar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri sem fram fór í mars 2001?

Umrædd kosning snerist um Reykjavíkurflugvöll. Það er ótímabært að svo stöddu að segja til um hvort flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni þar sem niðurstöður úr rannsóknum liggja ekki fyrir. Stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar að flugvöllurinn verði í Reykjavík, þó ekki liggi fyrir hvar nákvæmlega verði, hvort hann verði áfram í Vatnsmýrinni eða flytja þurfi hann til.