Íbúasamtök 3. hverfis
 

Vinstri grænir

Svör Vinstri grænna við spurningum frá Íbúasamtökum 3.hverfis í Reykjavík

1. Hvaða tillögur hefur framboðið til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og á hvaða tímabili?

VG hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á almenningssamgöngur og telur að vaxandi ferðaþörf, m.a. vegna aukins fólksfjölda verði best mætt með stórefldum almenningssamgöngum.  Við teljum að líta eigi á almenningssamgöngur sem sjálfsagðan hluta af samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu og þær eigi að eiga sinn sess í samgönguáætlun ríkisins.  Þétt net almenninssamgangna með áreiðanlegum og tíðum ferðum á sanngjörnu verði, ásamt auknum forgangi í umferðinni, er eitt af forgangsverkefnum í almenningssamgöngum svæðisins sem ráðast þarf í á næsta kjörtímabili.  Ríkið á ekki að skattleggja almenningssamgöngur eins og nú er, þvert á móti eiga markaðir tekjustofnar til samgöngumála að nýtast í almenninngssamgöngur, ekkert síður en aðra þætti samgöngumála.

2. Hvaða áætlanir hefur framboðið til að sporna við mengun af völdum bílaumferðar í höfðuðborginni, jafnt til skemmri og lengri tíma?

VG lítur á samgöngumálin sem eitt brýnasta viðfangsefni umhverfismálanna á höfuðborgarsvæðinu og beitti sér m.a. fyrir því að umhverfis- og samgöngumál voru sameinuð í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar á síðasta kjörtímabili og sérstök stefnumörkun í samgöngumálum fléttuð inn í umhverfisstefnu borgarinnar og Staðardagskrá 21.  Grípa þarf til fjölþættra aðgerða til að draga úr mengun af völdum umferðar en áhrifaríkasta leiðin er áreiðanlega að draga einfaldlega úr umferð. Það gerist m.a. með aukinni áherslu á þéttingu og blöndun byggðar í skipulagi svæðisins sem VG hefur m.a. beitt sér fyrir.  Þá þarf að auka hlutdeild umhverfisvænna ökutækja í umferðinni og beita þarf skattkerfinu í því efni en á það hefur stórlega skort.  Hér á einnig við áherslan á auknar almenningssamgöngur, ásamt bættum aðbúnaði gangandi og hjólandi vegfarenda, en VG hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um að hjólreiðastígar verði hluti af samgöngukerfinu en í dag eru eingöngu reiðstígar teknir inn í samgönguáætlun.

3. Styður framboðið fyrirhuguð mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eins og þau liggja fyrir á núverandi hönnunarstigi og Vegagerðin kynnti þingmönnum Reykjavíkur nýlega? Ef svo er ekki, þá hvers vegna?

Nei, VG styður ekki mislæg gatnamót á þessum stað.  Við teljum að með því sé einungis verið að flytja vandann til og bendum á nærliggjandi gatnamót í því sambandi þar sem ekkert rými er fyrir mislæg gatnamót.  Flöskuhálsinn verður því aðeins fluttur til.  Þar að auki teljum við ekki að stórkarlaleg umferðarmannvirki af þessari gerð eigi heima í þéttu borgarumhverfi, og má minna á að almennt eru slíkar lausnir á undanhaldi hvarvetna í löndunum í kringum okkur.  Loks má vekja athygli á að mikilvægt er að taka á umferðarhraða í borginni, en það er ekki síst mikilvægt til að auka umferðaröryggi, og mislæg gatnamót eru síst til þess fallin að minnka umferðarhraða, þvert á móti.

4. Styður framboðið yfirbyggða stokka- og/eða gangnalausnir stofnbrauta í gegnum 3. hverfi og ef svo er, hvenær sér framboðið slíkar lausnir komnar í notkun?

Almennt teljum við að stokkalausnir geti komið til álita í þéttri borgarbyggð til að draga úr mengun og greiða fyrir gegnumakstursumferð.  Fyrir borgarstjórnarkosningar 2006 lagði V-listinn til að stokkur á Miklubraut, milli Snorrabrautar og Stakkahlíðar, yrði forgangsverkefni í vegamálum í Reykjavík.  VG styður þessa stefnumörkun og telur brýnt að í þetta verkefni verði ráðist.  Við teljum að óskiljanleg áhersla á mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar muni tefja þetta mikilvæga verkefni og færa það aftar í verkefnaröðina í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.  Það er óásættanlegt.

5. Hvenær telur framboðið að Öskjuhlíðargöng verði orðin að veruleika? 

Erfitt er að fullyrða um nákvæma tímasetningu á þessu stigi.  Hins vegar er rétt að minna á að Öskjuhlíðargöng gegna mikilvægu hlutverki, m.a. til að draga úr umferðarálagi á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og því er einnig skynsamlegt að setja þetta mannvirki framar en hin margræddu mislægu gatnamót.  Ásamt Miklubrautarstokki og Sundabraut, eru Öskjuhlíðargöng með brýnustu verkefnum í vegamálum í Reykjavík.

6. Hverjar eru hugmyndir framboðsins um íbúalýðræði og styður framboðið aukið íbúalýðræði? Ef svo er, á hvern hátt mun framboðið beita sér fyrir að það þróist á næsta kjörtímabili? Ef ekki, þá hvers vegna?

VG styður aukið íbúalýðræði enda er það mikilvægur hluti sjálfbærrar þróunar sem er einn af hornsteinum stefnu Vinstri grænna.  Þá teljum við mikilvægt að Ísland gerist aðili að Árósarsamningnum um aukna aðkomu frjálsra félagasamtaka að ákvörðunum á sviði umhverfismála.  Beinar kosningar um einstök mikilvæg mál koma hér vel til greina og þá þannig að bæði sveitarstjórnir, Alþingi, eða tiltekinn fjöldi íbúa geti ákveðið að fram fari almenn atkvæðagreiðsla um mál.  Við teljum að setja þurfi almenna löggjöf um íbúalýðræði, bæði til að tryggja rétt íbúanna í þessu efni, en einnig til að skapa fastan ramma um hvers kyns atkvæðagreiðslur, hvenær þær séu bindandi og hvenær leiðbeinandi, um kosningaþáttöku o.fl.  Til viðbótar við almennar atkvæðagreiðslur þarf líka að tryggja íbúum aukna aðkomu að ákvörðunum í nærumhverfinu, s.s. um samráð, umsagnaraðild, tillögurétt o.fl. í því sambandi.

7. Að hve miklu leyti telur framboðið að íbúakosningar skuli vera bindandi fyrir stjórnvöld?

Í samræmi við svar við sp. 6, þá teljum við að setja þurfi almennan lagaramma um kosningar af þessu tagi, þar sem kveðið er á um það hvort og þá hvenær kosningar séu bindinandi.  Þar kemur til álita að setja skilyrði um lágmarksþátttöku.

8. Hvað ætlar framboðið að gera til að framfylgja niðurstöðu íbúakosningar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri sem fram fór í mars 2001?

Niðurstaða þessara kosninga var að meirihluti þeirra sem þátt tóku vildu að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýri eftir 2016, en gildandi aðalskipulag gerði ráð fyrir flugstarfsemi þar þangað til.  Á vettvangi borgarstjórnar hefur VG lýst þeirri skoðun að ákjósanlegasta staðsetning nýs innanlandsflugvallar sé á Hólmsheiði og í skýrslu starfshóp um staðarval flugvallar, fær sú staðsetning bestu einkunn.  Fyrirvari er þó gerður um frekari rannsóknir varðandi umhverfisþætti og veðurfar.  Við teljum að um leið og fullnægjandi rannsóknarniðurstöður liggja fyrir, sé hægt að taka endanlega afstöðu til framtíðarstaðsetningar innanlandsflugsins.  Þannig teljum við mikilvægt að fylgja eftir niðurstöðu íbúakosningarinnar árið 2001.