Íbúasamtök 3. hverfis

Mengun í Hlíðum

Íbúasamtök 3. hverfis hafa lengi bent á ástandið í hverfinu af völdum mengunar. Á stórum íbúafundi í Háteigsskóla þann 5. mars 2007 kom skýrt fram að ástandið er algjörlega óviðunandi. Hverfið er sundurskorið og umlukið af hraðbrautum og skv. rannsókn Þórarins Gíslasonar lungnalæknis ofl. þá virðist ekki skipta máli hvort búið sé 20 m eða 200 m frá stofnbrautum hvað varðar NO2 mengun. Sýnt hefur verið fram á svipaða virkni svifryks (PM10) (sjá nánar hér)

Frá 5. desember 2007 til 16. janúar 2008 var færanleg mælistöð Umhverfissviðs staðsett á gatnamótum Stakkahlíðar og Miklubrautar og staðfesti að ástandið er í raun verra en við höfðum gert okkur grein fyrir.

Þegar svifryk fór í fimmta skiptið yfir heilsufarsmörk þann 11. janúar 2008, þá skrifuðum við borgaryfirvöldum bréf. Daginn áður höfðu íbúasamtökin kynnt þetta ástand í Hverfisráði Hlíða. Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigiðsfulltrúi svaraði bréfi okkar þann 13. febrúar, en heldur fannst okkur lítið um aðgerðir í kjölfarið, þrátt fyrir ítrekun um að fylgst væri vel með málum.

Þann 3. mars 2008 skrifuðum við Umhverfisstofnun með óskum um þeirra aðkomu við að bæta loftgæði í hverfinu. Umhverfisstofnun svaraði okkur þann 30. mars með hjálögðu bréfi. Í kjölfarið hittu fulltrúar Íbúasamtaka 3. hverfis forsvarsmenn Umhverfis- og samgöngusviðs á fundi þar sem farið var í gegnum málið. Helsta niðurstaða þess fundar var að farið var yfir þær aðgerðir sem eru í farvatninu, ásamt aðgerðaráætlun. Um leið og við fögnum því að verið sé að vinna í málinu, þá liggur sú staðreynd á borðinu í lok apríl að svifryk í Hlíðum hefur farið 15 sinnum yfir heilsufarsmörk. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt og ljóst að fyrir næsta vetur verður að vera til áætlun sem tryggir íbúum í Hlíðum betra loft en nú er. Eftir að nagladekkjatímabili lauk og götur hafa verið þvegnar, þá virðist hafa dregið mjög úr svifyrkmegun og frá 20. apríl til 27. apríl hefur ekki komið dagur þar sem svifryk hefur farið yfir mörkin.

     Gögn  Íbúasamtaka 3. hverfis á fundi Hverfisráðs 10. janúar 2008 - PDF

     Bréf Íbúasamtaka 3. hverfis til Borgarstjóra, Umhverfissviðs og fl. 11. janúar 2008 - PDF

     Svar Umhverfissviðs til ÍBS 3 13. febrúar 2008 - PDF

     Bréf Íbúasamtaka 3. hverfis til Umhverfisstofnunar 3. mars 2008 - PDF

     Svar Umhverfisstofnunar til ÍBS 3 30. mars 2008 - PDF

     Bréf til borgarráðs og borgarstjóra - 23. júní 2008 - PDF

    

27. apríl 2008

Í ljósvakamiðlum og í Fréttablaðinu hafa verið umfjallanir um ástandið í Hlíðum sem kom í ljós í áðurtöldum könnunum. Hægt er að finna úrklippur hér.