Íbúasamtök 3. hverfis
 

Útisundlaug við Sundhöllina

 
Hugmynd Ívars Arnar Guðmundssonar hjá Nexus arkítektum
að útisundlaug við Sundhöllina

Sólveig Aðalsteinsdóttir ritaði grein þar sem hún hvetur til að dusta rykið af tillögum um að byggja útisundlaug við Sundhöllina í Reykjavík. Grein Sólveigar er hér.

Sólveig hefur líka skrifað fulltrúum í Skipulagsráði bréf um þetta, ásamt því að rita í blöð.

Hugmyndin að útisundlaug eru ekki nýjar af nálinni. Í september 2003 birti Morgunblaðið hugmyndir Ívars Arnar Guðmundssonar, arkítekts að útisundlaug og sögðu þáverandi borgarfulltrúar og borgarstjóri vera hlynnt hugmyndinni en hún væri þó ekki á dagskrá a.m.k. næstu 3 árin og að lágmarki væru 5 ár í að framkvæmdir gætu hafist. Í sama blaði var greint frá enn eldri hugmynd, eða frá 1944 sem var unnin af arkítektunum Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Eiríkssyni.

Ívar Örn Guðmundsson hjá Nexus arkítektum hannaði viðbyggingu sem var kynnt árið 2003, m.a. í Morgunblaðinu. Ívar hefur veitt okkur góðfúslegt leyfi að birta hér tillögur sínar og eru þær aðgengilegar í PDF skjölum hér að neðan.

Teikning 1 - Efrihæð og myndgerð af sundlauginni frá Snorrabraut - PDF

Teikning - Neðri hæð og myndgerð af sundlauginni frá Barónstíg - PDF

- - - - -

20. október 2008

Skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt að lóð sunnan Sundhallarinnar verði nýtt fyrir útisundlaug við Sundhöllina. Grein um þetta birtist á baksíðu Morgunblaðsins.

- - - - -

24. júní 2008

Á stjórnarfundi Íbúasamtaka 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri þann 10. júní 2008 var samþykkt svohljóðandi ályktun og send borgarstjóra og og öðrum oddvitum flokkanna sem eiga fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur:

Stjórn Íbúasamtaka 3. hverfis – Hlíðar, Holt og Norðurmýri tekur einhuga undir þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að byggja útisundlaug við Sundhöllina. Sú fjárfesting á eftir að borga sig margfalt í betri heilsu íbúa og gera þeim auðveldara að stunda þá hollu hreyfingu sem sund er. Að auki mun öll aðstaða til sundkennslu batna til muna, börnum í hverfinu til hagsbóta. Stjórnin telur skynsamlegt að byggja við núverandi mannvirki þar sem hægt er að nýta áfram búningsaðstöðu gömlu góðu Sundhallarinnar. Það er fróðlegt að rifja upp ummæli frá 2003 þar sem þáverandi borgarfulltrúar og borgarstjóri taka undir þessar hugmyndir og tala um að það taki a.m.k. þrjú ár að koma slíku inn á fjárhagsáætlun. Hugmyndir um útisundlaug við Sundhöllina hafa verið á lofti í yfir 65 ár og má því ætla að kominn sé tími til framkvæmda.