Íbúasamtök 3. hverfis
 

 

11. júní 2009

Hátíðin hefur færst alfarið yfir á portið á bak við Hlíðaborg og við ætlum að hittast þar með "nesti" og okkur sjálf. Það verður prjónaviðburður í garðinum í Eskihlíð 22 og síðan er það þannig að hver sem vill hafa atriði stendur fyrir því sjálfur en það er engin auglýst dagskrá og staðan á Flóamarkaðnum er óviss. Við náðum misvel til íbúa, allir vita af þessu en við vitum hreinlega ekki hver margir verða með.

- - -

Nú þegar dag tekur að lengja og vorið og sumarið komið eru íbúar Hlíðahverfis komnir á stjá og er óhætt að segja að allt hverfið lifni við með hækkandi sól. Í Eskihlíð hafa íbúar, líkt og í öðrum hverfum, verið að taka til hendinni í görðunum sínum og kom sú hugmynd upp, á einum slíkum sameiginlegum tiltektardegi, að gaman væri að halda hverfishátíð í Eskihlíðinni. Gatan státar af breiðri gangstétt blokkarmegin og stórum görðum við hverja blokk sem hægt væri að nýta á sambærilegan hátt og tíðkast víða í almenningsgörðum erlendis.  Hverfishátíð er frábært tækifæri til að loksins hitta allt það fólk sem deilir sama hverfi og samgleðjast með ungum og gömlum.

Til þess að hverfishátíð geti orðið að veruleika þurfum við öll að vinna saman. Við vitum að í Eskihlíð búa skapandi og gefandi einstaklingar sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum og það jákvæða er að svona hátíð endurspeglar ekki síður íbúana og það sem þeir sem einstaklingar hafa fram að færa.

Stjórnendur húsfélaga í hverri blokk við Eskihlíð eru fúsir til að ræða við íbúana um aðkomu þeirra að hátíðinni. Gott er að vekja áhugann og virkja íbúana í hverri blokk því næg skemmtileg en líka krefjandi verkefni eru fyrir höndum. Mörg börn búa í Hlíðunum og mun dagurinn án efa verða þeim hugleikinn. Þau börn sem leika á hljóðfæri gætu haldið litla tónleika, einnig væri gaman að virkja börnin í leiki og aðrar uppákomur. Hugsanlega gæti hver blokk í endalangri götunni verið með eigið þema eða dagskrá en einnig er hægt að sameinast við nokkrar blokkir í miðri götunni, til dæmis við númer 14, 16 og 18.
 
Á hverfishátíð í Eskihlíð gætum við til dæmis boðið upp á flóamarkað, grill, kökur, brauð og drykki, grænmeti, blóm og ávexti, götuleikhús, tónlist og aðra list, gæludýrasýningar, efnt til sultukeppni og ótal margt fleira sem okkur dettur í hug.

Norræna húsið er sérstakur bakhjarl þessa verkefnis enda má til gamans geta þess að um helmingur starfsfólks Norræna hússins býr í Hlíðunum. Árlega hefur Norræna húsið staðið fyrir fjölskylduhátíð með fjölbreyttri dagskrá en í ár langar okkur að færa út kvíarnar og jafnframt vera fordæmi fyrir önnur hverfi og stofnanir í borginni og víðar. Hefð er fyrir svipuðum viðburðum til dæmis í Vesturbænum og eykur þetta án efa gildi og ímynd Hlíðanna í hugum almennings.

Það þarf að huga að mörgu en margar hendur vinna létt verk og um leið verður verkið létt og skemmtilegt. 

Áætluð dagsetning hverfishátíðarinnar í Eskihlíð er sunnudagur 14. júní.

Með kveðjum og von um áframhaldandi góðar undirtektir.

Max Dager forstjóri Norræna hússins og íbúi í Eskihlíð 16b og
Ilmur Dögg Gísladóttir verkefnastjóri Norræna hússins og íbúi í Eskihlíð 22

max@nordice.is   sími. 551 7030
ilmur@nordice.is  sími 551 7019