Íbúasamtök 3. hverfis
 

Fjölmenni á fundi Íbúasamtaka 3. hverfis með framboðum til borgarstjórnarkosninga 2010

Um 60 manns mættu á fund Íbúasamtaka 3. hverfis á Kjarvalsstöðum þar sem fulltrúum allra framboða til borgarstjórnarkosninganna 2010 var boðið að svara nokkrum völdum spurningum frá Íbúasamtökunum. Öll framboð utan Besta flokksins þáðu boðið og skýrðu afstöðu sína til spurninga Íbúasamtakanna.

Að afloknum framsögum allra frambjóðenda, þá var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal og ljóst að margt brennur á íbúum 3. hverfis og mengun og hraðakstur þar efst á baugi.

Spurningarnar til framboðanna er hægt að nálgast hér að neðan, eða í þessu PDF skjal.

Hér eru myndir frá fundinum.

Fundarboðið:

Íbúasamtök 3.hverfis Hlíðar, Holt og Norðurmýri hafa í gegnum árin haft þann háttinn á í aðdraganda borgarstjórnarkosninga að senda framboðum nokkrar spurningar sem að mati stjórnar samtakanna brenna hvað heitast á íbúum hverfisins. Svörin hafa verið birt á vef samtakanna og send fjölmiðlum. 

Fyrir þessar kosningar hafa Íbúasamtökin hinsvegar blásið til fundar með framboðunum um málefni 3. hverfis Reykjavíkur.

Fundurinn verður haldinn á Kjarvalsstöðum, þriðjudagskvöldið 11. maí kl. 20.

Öllum framboðum sem tilkynnt hefur verið um í Reykjavík hefur verið sent erindi sem þau fá tækifæri til að svara á fundinum í 5 mínútna framsögum.

Að þeim loknum verður opið fyrir fyrirspurnir úr sal og íbúar í 3. hverfi geta spurt frambjóðendur spurninga um málefni hverfisins.

Íbúar eru hvattir til að mæta á fundinn og heyra hvernig framboðin hyggjast svara eftirfarandi spurningum Íbúasamtaka 3. hverfis:

  • Hvað ætlar framboðið að gera til að draga úr svifryksmengun í 3.hverfi? 
  • Hver er afstaða framboðsins til „Framkvæmdaáætlunar um betra Miklatún“ og „Húss frítímans“ á Miklatúni?
  • Mun framboðið beita sér fyrir því að undirbúningsvinna að framkvæmdum við gerð stokks á Miklubraut hefjist á kjörtímabilinu?
  • Hvað hyggst framboðið gera til að hrinda í framkvæmd samþykktri samgönguáætlun Hlíðahverfis?
  • Styður framboðið afnám þrepaskiptra gangbrautarljósa í borginni, s.b.r. ljósin yfir Miklubraut við Skaftahlíð? 
  • Styður framboðið gerð göngu- og hjólabrúar frá Hlíðum yfir að Kringlusvæði?
  • Hver er stefna framboðsins í málefnum Hverfisráða?

Fjölmennum á Kjarvalsstaði á þriðjudaginn kl. 20:00

Fundarstjóri er Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. 

Gögn send framboðum vegna fundarins eru aðgengileg hér í PDF skjali.